Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

stjórn fiskveiða.

861. mál
[16:50]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Já, auðvitað er komið víða við. Þetta er lítill hluti af kerfinu og menn setja það í spennitreyju. Það er einfaldlega mikið svigrúm til veiða. Það sem mér finnst kannski að sé meginforsendan í þessu er í fyrsta lagi að það þarf að vera ákveðið jafnræði til að hefja fiskveiðar og njóta þess að taka þátt í greininni. Það er bara atvinnufrelsisákvæði stjórnarskrárinnar sem þar er undir. Ég held að menn verði líka að horfa til þess hvernig við náum fram markmiðum laganna og þau hafa ekkert náðst með núverandi kerfi. Þess vegna verðum við að taka það til endurskoðunar. Markmiðið var m.a. að tryggja byggðafestu en kerfið hefur snúist upp í algjöra andhverfu sína. Eina ljóstíran í þessu kerfi eru grásleppuveiðarnar og síðan strandveiðarnar og auðvitað eigum við að opna fyrir það vegna þess að það eru engin rök, fiskifræðileg rök, fyrir því að telja að handfæraveiðar geti ráðið einhverjum úrslitum um vöxt og viðgang fiskstofna. Við erum bara komin í algjörar ógöngur hvað það varðar. Það er kannski ástæðan fyrir því að umræðan fór út um víðan völl, m.a. um stefnu Vinstri grænna. Þetta frumvarp er greinilega ekki í neinu samræmi við það sem hér er um fiskifræðileg rök. Það er tækifæri, vil ég telja. Þess vegna er ég að blása hæstv. ráðherra örlitla bjartsýni í brjóst og benda henni á að það getur verið að það sé hægt að veiða örlítið meira og það fari ekki allt á hliðina við að bæta við nokkur þúsund tonnum í strandveiðar.