Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

stjórn fiskveiða.

861. mál
[16:53]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er náttúrlega hægt að fara víða þegar við ræðum sjávarútvegsmálin og hvernig við förum með auðlindina. Hér erum við að ræða þennan hluta sem snýr að strandveiðum innan 5,3% pottsins. Ég kom fram með það að á ekki löngu tímabili, 14 árum, hefur þetta farið úr 3.000–4.000 tonnum upp í 11.000 tonna veiði. Þetta mál snýst um að búa til ákveðið jafnræði á milli svæða. (Gripið fram í.) Ég hef verið þeirrar skoðunar að C-svæðið t.d. hafi ekki notið jafnræðis á við önnur svæði þegar svæðaskiptingin var tekin út fyrir fjórum árum. Þetta er ekki flóknari umræða en það sem við erum að fást við í þessu frumvarpi að mínu mati. Með því að taka upp gömlu svæðaskiptinguna þá aukum við jafnræði, þann hluta í málinu. En auðvitað er alltaf grunnatriði varðandi allt að nýta auðlindina sem best og fara vel með aflann og annað. Umræðan hefur verið um nýtingu afla og vinnslu í landi þar sem afli kemur á land og slíka þætti, það hefur verið farið vítt og breitt í þessari umræðu í gegnum árin. En um þann efnislega punkt sem þetta frumvarp snýst, sem er strandveiði og svæðaskiptingin, (Gripið fram í.) vil ég bara segja að ég styð þá nálgun vegna þess að ég sé að það hefur bara farið þannig, sem ég hafði miklar áhyggjur af fyrir fjórum árum í þessu máli, að það hefur hallað verulega á ákveðin landsvæði umfram önnur. Þetta er ekki flóknara en það, það sem við erum að ræða hér, að mínu mati.