Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

stjórn fiskveiða.

861. mál
[16:55]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur nú farið víða. Hér var fjallað um málið sem slíkt og ég þakka sérstaklega fyrir umræðu um það. Það er auðvitað viðfangsefni og verkefni hv. atvinnuveganefndar, í framhaldi af þessari umræðu hér, að vinna úr frumvarpinu og fjalla um það eins og vera ber í þinglegri meðferð. Síðan hafa farið fram umræður vítt og breitt um fiskveiðistjórnarkerfið almennt. Raunar hefur sú umræða gengið mjög langt, sérstaklega af hendi varaþingmanns Flokks fólksins hér, og orðræðan var í raun á því plani að það var engu líkara en að kommentakerfin væru komin hingað í stól Alþingis. En það er kannski það sem hv. þingmanni þykir sómi að, það verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður í þeim efnum. En þegar við erum að ræða líffræði, ég er sannarlega ekki líffræðingur, verðum við að halda því til haga, virðulegur forseti, að Hafrannsóknastofnun byggir ráðgjöf sína á mjög sterkum vísindalegum grunni. Sá vísindalegi grunnur fær rýni frá vísindanefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Það er vegna þess að við viljum byggja þetta á traustum grunni. Það er óboðlegt að hv. þingmaður tali hér eins og Hafrannsóknastofnun og sú vinna sem þar er unnin sé einhvers konar fúsk eða geðþóttavinna vegna þess að hún byggir á sterkum grunni.

Ég vil hins vegar algjörlega taka undir það sem kom fram í ágætisyfirferð hjá hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur hvað varðar mikilvægi þess að styrkja enn betur hafrannsóknir í landinu. Það er ekki síst vegna þess að við þurfum aukna þekkingu á vistkerfum hafsins og við þurfum aukna þekkingu sem lýtur að áhrifum loftslagsbreytinga og hlýnunar á vistkerfi hafsins, á hækkun sjávarborðs o.s.frv. Þarna þurfum við að bæta í og á það hef ég lagt áherslu. Það hefur verið töluvert til umræðu í vinnunni um auðlindina okkar, þar sem hv. þingmaður hefur setið einn fund af mjög mörgum, en telur sig þess umkominn að gera lítið úr þeirri vinnu, eins og raunar vel flestu sem hv. þingmaður ræðir, sem er umhugsunarefni þegar við erum að reyna að fjalla hér um flókin pólitísk úrlausnarefni og viðfangsefni sem varða hag samfélagsins alls.

Það kann að vera að á einhverjum tímapunkti í pólitísku lífi hv. þingmanns hafi það þótti vera eitthvert sérstakt keppikefli að tala niður vísindi og rannsóknir en sem betur fer hefur það breyst í tímanna rás. Við höfum áttað okkur á því að raunverulegar ákvarðanir þegar vá steðjar að — eins og loftslagsváin, eða við getum rætt hér, án þess að fara meira út fyrir umræðuefnið en þegar hefur verið gert, viðbrögð við veiru — þurfum við að byggja á þekkingu, á vísindum, á rannsóknum en ekki gífuryrðum og kommentakerfum eins og hv. þingmaður stendur hér fyrir. Sá málflutningur dæmir sig sjálfur.

Það sem hér er lagt af stað með er að tryggja jafnræði milli landshluta innan núverandi kerfis og vísindalegrar ráðgjafar. Það er viðfangsefnið. Svo getur maður talað út og suður um allt mögulegt og það er bara fínt vegna þess að þingsalurinn er líka málstofa og við þurfum að ræða málin frá ýmsum hliðum. En ég vil brýna hv. atvinnuveganefnd til að taka málið til umfjöllunar og þau álitamál sem hér hafa komið upp því að það er mikilvægt að gera það. Það er mikilvægt að við séum að stíga skref í átt til sanngirni og réttlætis meðan þessi stóra og umfangsmikla vinna á sér stað. Ég hlakka til að styðja hv. atvinnuveganefnd með ráðum og dáð í því sem hún óskar eftir í úrvinnslu málsins.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.