Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóði.

77. mál
[17:08]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um staðgreiðslu við innborgun í lífeyrissjóði. Með mér á tillögunni eru Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Sem sagt, þetta er tillaga flutt samhljóma af gjörvöllum Flokki fólksins. Með leyfi forseta, segir svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir lok ársins 2023 þess efnis að staðgreiðsla skatta fari fram við innborgun í lífeyrissjóð en ekki við útgreiðslu lífeyrissparnaðar. Tryggt verði að þeim fjármunum sem breytingin skilar ríkissjóði verði varið í þágu aukinnar velferðar.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur fram að þessi þingsályktunartillaga var áður flutt á 150., 151. og 152. löggjafarþingi, 53. mál, en náði ekki fram að ganga. Tillagan er nú endurflutt óbreytt. Sem sagt, hér stend ég í fjórða sinn til þess að reyna að bæta fjárhagsstöðu ríkissjóðs án þess að þurfa að selja banka.

Á síðustu árum hafa eignir lífeyrissjóðanna stóraukist og námu 6.791,3 milljörðum kr. í lok janúar þessa árs. Ég endurtek, hæstv. forseti, að eignir lífeyrissjóðanna hafa stóraukist og námu núna í janúar 2023 hvorki meira né minna en 6.791,3 milljörðum kr. samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands. Inngreiðslur í samtryggingarsjóði eru um 250 milljarðar á ári. Árið 2000 námu eignir lífeyrissjóðanna um 80% af vergri landsframleiðslu en nú er hlutfallið komið í 180%. Hæst fór hlutfallið í 208% árið 2021.

Það er áhyggjuefni hve mikil umsvif lífeyrissjóðanna eru í íslensku viðskiptalífi. Stjórnir þeirra eru skipaðar fulltrúum verkalýðsfélaga og atvinnulífsins sem síðan skipa stjórnarmenn til að sitja fyrir hönd sjóðanna í stjórnum fyrirtækja sem sjóðirnir eiga hlut í. Þannig eru tengslin á milli eigenda fjármagnsins, sjóðfélaga, og þeirra sem annast fjárreiður lífeyrissjóða lítil sem engin. Á íslensku: Þeir sem eiga þessa tæpu 7.000 milljarða í sínum lífeyrissjóðum, með lögþvinguðum lífeyrisgreiðslum í gegnum alla starfsævina, koma yfir höfuð ekki nálægt því að fjalla um það hvernig verður með þessa fjármuni farið. Útkoman er sú að stór hluti íslenskra fyrirtækja er í eigu óvirkra aðila sem starfa samkvæmt lögbundinni ávöxtunarkröfu en ekki vilja sjóðfélaga sjálfra. Undanfarin ár hafa lífeyrissjóðir sætt gagnrýni fyrir að fjárfesta í áhættusömum fyrirtækjum, greiða stjórnarmönnum ofurlaun og styðja viðskipti sem sjóðfélögum algjörlega blöskrar. Með því að greiða skatta af iðgjöldum við innlögn í lífeyrissjóði má sporna við því að lífeyrissjóðir verði óeðlilega stórir miðað við stærð hagkerfisins.

Fjármuni skortir til að ráðast í nauðsynlegar úrbætur á íslenska velferðarkerfinu. Heilbrigðiskerfið stendur á brauðfótum, bætur almannatrygginga duga ekki til framfærslu og bilið milli hinna ríku og hinna fátæku eykst ár frá ári. Því er nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs og nýta þær í þágu fólksins. Skattlagning við innlögn í lífeyrissjóð í stað útgreiðslu er sársaukalaus leið til að stórauka tekjur ríkissjóðs og gerir honum kleift að styrkja velferðarkerfið án þess að skerða ráðstöfunartekjur almennings. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi eru iðgjöld í lífeyrissjóði og mótframlög vinnuveitenda ekki skattlögð. Þess í stað eru greiðslur úr lífeyrissjóðum til lífeyrisþega skattlagðar. Þannig er skattlagningu þeirra fjármuna sem mynda stofn lífeyrissparnaðar frestað þar til kemur að útgreiðslu þeirra. Á íslensku er það einfaldlega þannig að þegar við erum að fá útborgað, við sem berum skyldu til að greiða í lífeyrissjóð, borgum við ekki lífeyrissjóðinn. Það er talið að það sé okkur til tekna að þessir peningar haldi áfram að ávaxtast í lífeyrissjóðunum og við munum í rauninni ríða feitari hesti frá því þegar kemur að töku lífeyris seinna á ævinni. Ég ætla ekki að fara að tala um það hér hvað það eru mörg þúsund Íslendingar sem aldrei fá að njóta þess að hafa lögþvingað greitt í lífeyrissjóði, eru einfaldlega dánir áður en kemur að því ferli. Allt sem þeir hafa lagt í þessa skyldu, þessar lögþvinguðu greiðslur, hefur að stærstum hluta fallið í hítina. Það gengur að litlu leyti, herra forseti, til barna eða eftirlifandi maka. Þegar kemur að því að við eigum að fá greiðslur úr lífeyrissjóði, þau sem er svo heppin að vera enn þá lifandi, enn þá til, og fá að njóta ávaxtanna sem við eigum að hafa ræktað á starfsævinni, þá kemur því miður upp sú staða hjá allnokkrum að þeir hafa einhvers staðar á leiðinni lent í slysum, eru orðnir öryrkjar. Þeir þurfa að fara að nýta sér lífeyrisréttindin sín. Þeir eru orðnir eldri borgarar sem hafa ofboðslega litla framfærslu og hefðu gjarnan viljað sleppa við það að þurfa að greiða skatt þegar þeir eru að fara að taka greiðslurnar sem þeir eiga rétt á úr lífeyrissjóði. Ég veit ekki hvað ég er búin að tala við mörg hundruð manns, sjálfsagt þúsundir manna á ferli mínum sem alþingismaður núna í fimm ár og enginn þeirra, ekki einn einasti þeirra er á móti því að staðgreiðslan skili sér betur við innborgun í sjóðina heldur við útborgun og allir vildu vera þá lausir við hana. Það sýnir sig enda núna, mér skilst að það séu t.d. um 3.000 milljarðar sem lífeyrissjóðirnir okkar eiga hér í innlendum bréfum og ég man ekki hvort þeir hafa þegar tapað um 600 milljörðum af því vegna þess að það þarf að fjárfesta. Það er 3,5% ávöxtunarkrafa á sjóðina og það er úr vöndu að ráða. En yfirbyggingin er líka alveg skýr. Það kom fram fyrir fjórum árum síðan hjá nýkjörnum formanni VR, Verslunarmannafélags Reykjavíkur, Ragnari Þór Ingólfssyni, þeim góða manni sem ég met mikils, að þá var yfirbyggingin yfir 20 milljarðar á ári. Það er ekki skrýtið þó að menn reyni að komast í stjórn lífeyrissjóðanna. Það er ekki skrýtið þó að það sé hangið á því eins og hundur á roði vegna þess að þessir einstaklingar eru að fá milljónir á milljónir ofan greitt fyrir þessi störf sín. Þessi upphæð var algerlega fyrir utan þann kostnað lífeyrissjóðanna, sem skiptir milljörðum á milljarða ofan, við að fá erlenda aðstoð, aðstoð frá sérfræðingum erlendis frá til að fjárfesta fyrir alla þessa peninga. 250 milljarðar kr. á ári dælast inn í lífeyrissjóðakerfið okkar þar sem eru nú þegar tæpir 7.000 milljarðar. Ég velti bara vöngum yfir því hvaða guðlegi máttur gerir það að verkum að við tökum ekki staðgreiðslu við innborgun sem myndi skila ríkissjóði sennilega um 60 milljörðum kr. árlega umfram það sem staðgreiðsla við útgreiðslu úr lífeyrissjóðunum er að setja inn í ríkissjóð.

Virðulegi forseti. 60 milljarðar. Það er verið að státa af sölu á gullgæsinni okkar, hlut í Íslandsbanka, fyrir 53 milljarða, takk fyrir. Það var einskiptisaðgerð, við skulum taka eftir því. En með þessari lagabreytingu þá fáum við hér aukalega 60 milljarða árlega. Hvað í ósköpunum skyldi mæla því mót að afnema þetta? Þetta er undanþáguregla sem lífeyrissjóðirnir eru með því að meginreglan er náttúrlega sú að við erum öll skyldug til að greiða staðgreiðslu um leið og við fáum útborgað. Allir eru skyldugir til þess, launþegar jafnt sem vinnuveitendur eru skyldugir að greiða staðgreiðslu um leið og þeir fá útborgað hvar og hvenær sem er, alls staðar í kerfinu. Einungis lífeyrissjóðir eru með þessa undanþágureglu um staðgreiðslu við innborgun.

Ávöxtun lífeyris er ekki áhættulaus og hefur borið við að lífeyrissjóðir skili verulegu tapi. Með þessari þingsályktunartillögu er einfaldlega lagt til að ríkissjóður sæki skatttekjurnar í upphafi og geti því ráðstafað þeim á eigin forsendum í stað þess að treysta lífeyrissjóðum til að ávaxta féð.

Þegar talað er um hversu mikilvægt það sé að halda þessu áfram og halda áfram staðgreiðslunni inni í sjóðunum á meðan við eyðum starfsævinni okkar eins og við gerum þá veltir maður því óneitanlega fyrir sér hvað er hægt að gera við 60 milljarða aukalega á ári inn í ríkissjóð, hvernig við gætum komið til móts við þá sem lakast standa í samfélaginu, hvernig við gætum brotið niður fátæktarmúra og fátæktargildrur núna í þessu árferði, sem hefur ekki verið eins hroðalegt og síðan í efnahagshruninu 2008 hvað lýtur að verðbólgu og okurvöxtum og einu úrræðin virðast vera þau að halda áfram að gusa olíu á eldinn. Með þessum 60 milljörðum kr., virðulegi forseti, er hægt að gera kraftaverk fyrir fólkið í landinu sem býr við bágust kjörin. Það væri hægt að gera samninga við sérgreinalækna, samninga við sjúkraþjálfara, samninga við tannlækna. Það væri hægt að gera samninga og fylgja eftir því sem við viljum byggja á, sem heitir velferðarkerfi, raunverulegt velferðarkerfi sem raunverulega tekur utan um þá sem á þurfa að halda. Raunverulegt velferðarkerfi, virðulegi forseti, ekki í skötulíki eins og það er núna. Aldrei frá því að ég kom á Alþingi Íslendinga hefur staðan vera eins erfið og bágindin jafn mikil. Nú er svo komið að þeir sem hafa ráðist í það að kaupa sér húsnæði, tekið lán, tekið lán á breytilegum vöxtum, það er búið að lengja svoleiðis í hengingarólinni hjá þessu fólki að það getur ekki brugðist meira við, það getur ekki staðið í skilum og því miður er það ekki þannig að peningarnir vaxi á trjánum, því miður. Þetta fólk á ekkert fyrir höndum annað en að lenda undir hamri uppboðshaldara, missa heimili sín í þúsundavís eins og í hruninu 2008 þar sem hin frábæra velferðarstjórn varð þess valdandi að 12.000–15.000 fjölskyldur misstu heimili sín. (Gripið fram í.)Ég segi bara eins og er: Er það þannig að við ætlum að stefna í nákvæmlega það sama aftur? Er það virkilega svo? Ég skora á hv. þm. Loga Einarsson að koma í andsvör við mig hvað það varðar um sannleiksgildi orða minna um velferðarstjórnina sem kom hér 15.000 fjölskyldum á vonarvöl eftir síðasta efnahagshrun.

En hvað um það. Við viljum reyna að byrgja brunninn áður en við dettum ofan í hann aftur. Það hljóta að vera til einhver önnur ráð í samfélaginu en að hækka endalaust stýrivexti og koma fjölskyldunum í landinu á vonarvöl, þeim sem geta ekki með nokkru móti hönd fyrir höfuð sér reist. Þessi þingsályktunartillaga gefur ríkissjóði hvorki meira né minna en a.m.k. um 60 milljarða kr. á ári og ég efa það ekki að við öll sem eigum lífeyrisréttindi og höfum greitt í þessa sjóði tökum því fagnandi þegar á heildina er litið. Þá getum við virkilega byggt hér upp traustari grunn. Ég man nú, sælla minninga, eftir þeirri verkun sem ég hef svo sem fengið út af því að vera með breytingartillögu við útlendingafrumvarp, tillögu um að reyna að stemma stigu við alveg ofboðslega miklum fólksfjölda hingað til lands þar sem í rauninni kerfið okkar er hrunið og getur ekki tekið á móti þeim. Með þessu fjármagni, ef við tökum þessa fjármuni inn, 60 milljarða á ári, er svo margt sem getur breyst. Það er svo miklu meira sem við getum gert fyrir svo miklu fleiri.

Virðulegi forseti. Þetta er ekkert annað en nauðsynleg aðgerð sem þýðir ekki aukaskattlagningu á einn eða neinn. Ég hvet ríkisstjórnina til dáða og ég vildi óska þess að það væru allir að hlusta á mig flytja þessa þingsályktunartillögu, að það væru ekki bara ég og hv. þm. Sigurjón Þórðarson og virðulegur forseti sem værum að hlusta á þetta. En þetta skiptir máli. Þetta er lífsbjörg. Þessi þingsályktunartillaga er lífsbjörg fyrir þá sem höllustum fæti standa í samfélaginu í dag.