Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

fjöleignarhús.

80. mál
[17:48]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hildi Sverrisdóttur fyrir andsvarið og það gleður mig af öllu hjarta að heyra að hv. þingmaður skilur í rauninni stöðuna og skilur þá hugsjón sem við erum að setja í þetta mál. Ég vil líka þakka henni fyrir þessa ötulu baráttu hennar sem fulltrúi í borginni á sínum tíma og það er gleðilegt að það sé til kisukaffi. Hv. þingmaður talar um fólk sem er haldið miklum astma, fólk sem eðli málsins samkvæmt á erfitt með að umgangast gæludýr en í raun og veru, eins og ég rakti í framsögu minni með frumvarpinu hér áðan, er oftar en ekki um að ræða eingöngu það að koma dýrinu frá íbúðinni og út og reyna náttúrlega að koma í veg fyrir það að mæta viðkomandi í ganginum ef hann er mjög veikur. Það gildir alveg það sama þarna eins og bara þegar farið er út í búð, þeir sem eru mjög veikir og viðkvæmir fyrir því að fá kast út af ofnæmi gegn dýrum eiga margir hverjir bara erfitt með að fara út í búð þar sem er mikið af fólki vegna þess að við berum með okkur þessa vaka frá dýrunum. Ég er venjulega eins og hundur sjálf, öll loðin í hundahárum og allt þetta. Auðvitað er þetta snúið. En í þessu tilviki þá finnst mér bara eðlilegasta mál í heimi að það sé rætt algerlega í húsfélaginu, hver staðan er hjá íbúunum í húsfélaginu og hvort það sé bara ákveðinn ómöguleiki að koma með dýr inn vegna þess að þá myndi það hreinlega skapa hættuástand fyrir einhverja íbúa sem eru þar fyrir. Þá væri þessum einstaklingi kannski mögulegt að fara þá í annað fjölbýlishús þar sem væri ekki slík vá fyrir dyrum. (Forseti hringir.) En það var góður punktur og vantar í frumvarpið mitt þann punkt sem hv. þingmaður bendir á í sambandi við unga fólkið (Forseti hringir.) sem á erfiðara með að fá húsnæði og koma sér í leiguhúsnæði af því að það á gæludýr.