Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

fjöleignarhús.

80. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Viðari Eggertssyni fyrir andsvarið. Jú, þetta er athygliverð vangavelta en það breytir ekki þeirri staðreynd að þegar hússtjórnin ásamt viðkomandi einstaklingi kemur að þá á ég voðalega bágt með að trúa því að allir 2/3 sem þurfa að koma til til að álykta um slíkt væru sammála um að vera virkilega vondir við þann sem ætti dýrið og það ítrekað. Hvort sem það er dýraatferlisfræðingur eða einhver annar algjörlega hlutlaus aðili sem kemur að borðinu í lokin eða eitthvað slíkt þá hefur hann náttúrlega ekki búið við þetta á meðan þetta framferði fer fram sem stærsti hluti húsfélagsins er að gera athugasemdir við. Ég hefði kannski haldið að hv. þingmaður hefði jafnvel áhyggjur af því að allt í einu kæmi kannski 2/3 hluti húsfélagsins og ákvæði, af því bara, að vera ömurlega leiðinlegur við viðkomandi einstakling sem heldur gæludýr og gerði honum allt til miska til þess að reyna að skemma fyrir honum að fá að eiga þennan vin í friði. Auðvitað getur komið alls konar út úr þessu en þetta er alla vega liður í því að reyna að auka frelsi og opna fyrir það að fólk þurfi ekki að byrja á því að ganga á milli dyra og biðja um leyfi til að halda dýr sitt, jafnvel einstaklingar, eins og hv. þingmaður réttilega bendir á, fullorðið fólk sem oft er að minnka við sig og/eða er orðið eitt og hefur ekkert annað, engan félaga annan en gæludýrið sitt, að það þurfi ekki að standa í því og vera í kvíðakasti yfir að vera að flytja í sambýli við aðra í fjölbýlishúsi og geta ekki verið öruggt í hjartanu með að geta tekið vin sinn með sér þangað skammlaust.