Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 86. fundur,  23. mars 2023.

afnám vasapeningafyrirkomulags.

83. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Hér er ég mætt enn á ný. Það er sérstaklega ánægjulegt að fá að vera svona mikið í æðsta ræðustóli landsins í dag en það er af því að Flokkur fólksins er svo ofboðslega kappsamur og hjarta hans slær svo í takt við þá sem eiga erfitt í samfélaginu og við gefumst ekki upp þótt á móti blási og höldum áfram, samanber þessa tillögu til þingsályktunar sem ég nú mæli fyrir, um afnám vasapeningafyrirkomulags. Gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins er með mér á tillögunni, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félags- og vinnumarkaðsráðherra að leggja fram lagafrumvarp til breytinga á lögum um málefni aldraðra, fyrir árslok 2023, sem tryggi afnám svokallaðs vasapeningafyrirkomulags og að lífeyrisþegi sem flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili haldi óskertum lífeyris- og bótagreiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Markmið frumvarpsins verði að aldraðir fái notið lögbundins fjárræðis og sjálfræðis.“

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að þingsályktunartillagan var lögð fram á 149., 150., 151. og 152. löggjafarþingi, 47. mál, og er nú lögð fram að nýju óbreytt. Það er sem sagt í fimmta sinn sem þessi kona stendur hér og berst fyrir því að eldra fólk fái að halda fjárræði sínu.

Landssamband eldri borgara hefur í mörg ár beitt sér fyrir því að breytingar verði gerðar á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þannig að eldri borgarar haldi sjálfræði sínu og fjárhagslegu sjálfstæði óháð heimilisfesti. Í V. kafla laganna er fjallað um kostnað við öldrunarþjónustu. Þar er einnig fjallað um þátttöku heimilismanna dvalarheimila í greiðslu þess kostnaðar.

Þegar einstaklingur flytur inn á dvalar- eða hjúkrunarheimili fellur réttur viðkomandi til ellilífeyris niður. Ef tekjur viðkomandi ná ekki 132.368 kr. á mánuði getur hann átt rétt á ráðstöfunarfé, eða vasapeningum, sem á árinu 2022 er að hámarki 86.039 kr. Þetta eru sirka 17.000 kr. á viku, vasapeningarnir sem þessi einstaklingur fær, 86.000 kr. á mánuði. Ég veit bara að það að klippa tásurnar hjá pabba mínum sem er á hjúkrunarheimili kostar 9.000 kr., bara það. Annað eins að fara í klippingu. Svo er þeim náttúrlega gert það algerlega ókleift að gleðja nokkurn einasta mann, hvort sem það er afmælisgjöf til barnabarnabarnanna, barnabarnanna eða barna sinna eða hverra sem er.

Kostnaðarþátttakan er umtalsverð og margir verða af nær öllum sínum tekjum þegar ellilífeyrir fellur niður. Afleiðingin er sú að fólk þarf í flestum tilvikum að láta vasapeningana, þessar 86.039 kr. á mánuði sem ég var að tala um, duga fyrir öllum útgjöldum. Þá skerðast vasapeningarnir um 65% vegna annarra tekna.

Með tillögu þessari er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leggja fram lagafrumvarp sem tryggi sjálfræði og fjárræði aldraðra einstaklinga þegar þeir fara inn á hjúkrunarheimili og að greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum verði breytt þannig að íbúar haldi lífeyrisgreiðslum sínum og greiði milliliðalaust fyrir húsaleigu, mat og annan kostnað sem fylgir heimilishaldi. Almennar reglur um þá heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heimilunum verði þó óbreyttar. Gert verði ráð fyrir að íbúar geti átt rétt á húsnæðisbótum og kostnaðarþátttaka einstaklinga á dvalar- eða hjúkrunarheimilum verði tekjutengd og falli niður hjá þeim sem hafi lágar tekjur.

Takið eftir. Þeir einstaklingar sem hafa lágar tekjur og eru raunar fátækir, eru í gildru fátæktar, eigi ekki að greiða fyrir umönnunina.

Árið 1989 fékk Halldór Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður Dalbæjar á Dalvík, leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til að breyta hluta Dalbæjar, heimilis aldraðra á Dalvík, í verndaðar þjónustuíbúðir. Halldór skrifaði skýrslu til heilbrigðisráðuneytisins og stjórnar Dalbæjar í október 1990, nokkrum mánuðum eftir að tilraunaverkefninu lauk. Tilrauninni var ætlað að gefa öldruðum kost á að halda fjárhagslegu sjálfstæði. Fjórir karlar og fjórar konur tóku þátt í tilrauninni og niðurstöðurnar voru að þátttakendur í tilrauninni sýndu aukna virkni, félagslífið jókst og ferðir út í bæ urðu fleiri. Þessi tilraun leiðir líkur að því að hið hefðbundna dvalarheimilisform sé neikvætt og hafi alið af sér ótímabæra hrörnun einstaklinga.

Ég velti því fyrir mér, frú forseti, hvernig í veröldinni standi á því að svona er farið með fullorðið fólk, að svona er komið fram við fullorðið fólk.

Starfshópur um afnám vasapeningafyrirkomulagsins var skipaður í maí 2016 af þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttur, en hann hefur ekki enn skilað niðurstöðum sínum. Það eru sjö ár síðan. Í svari félags- og jafnréttismálaráðherra árið 2018 um afrakstur starfshópsins kom fram að vinna hópsins væri enn á undirbúningsstigi. Jæja, það er sjö ár liðin frá því að hópurinn var settur á laggirnar. Ég ætla að vona að hann sé alla vega launalaus, þessi hópur, því ekki er hann að skila mikilli vinnu, það liggur á borðinu. Það væri forvitnilegt að vita hvar hann er staddur í dag.

Afnám vasapeningafyrirkomulagsins hefur verið á döfinni í mörg ár án þess að þær hugmyndir hafi skilað sér í neinu handföstu. Árið 1990 var sambærilegu fyrirkomulagi í Danmörku breytt. Lífeyris- og bótaþegar sem bjuggu á stofnunum héldu sínum tekjum en borguðu fyrir sig sjálfir. Það hafði ekki endilega í för með sér að þeir hefðu meira fé handa á milli, enda snýst þessi tillaga ekki um það, en það þýddi að þeir voru fjárhagslega sjálfstæðir.

Með þessari þingsályktunartillögu er því beint til félags- og vinnumarkaðsráðherra að endurskoða strax vasapeningafyrirkomulagið þannig að aldraðir haldi sjálfræði inni á stofnunum í eins ríkum mæli og kostur er svo að sem minnstar breytingar verði á högum fólks og háttum þegar það þarf á breyttu búsetuúrræði að halda.

Það helsta sem ég hef orðið vör við að hefur verið gert að umtalsefni eða sem athugasemd við þetta er að það er verið að gera því skóna að það séu margir orðnir svo heilabilaðir þegar þeir eru komnir á þennan stað að þeir muni ekki hafa vit á því hvort heldur sem er að halda fjárhagslegu sjálfstæði sínu.

Virðulegi forseti. Það er skömm að því, það er virkileg skömm að því ef það á að draga þetta fram sem ástæðu fyrir því að við þurfum að halda áfram þessu fyrirkomulagi, að gjörsamlega svipta fullorðið fólk, eftir allt sitt lífshlaup, sjálfræði og fjárræði sínu. Það er skömm að þessu vegna þess að til lánsins er það svo að mörg okkar fá að halda andlegri heilsu algerlega fram í andlátið þótt auðvitað séu það aðrir sem gera það ekki og þá mun, eðli málsins samkvæmt, það liggur á borðinu, vera komið til móts við það. En það þýðir ekki að svipta þurfi alla þá sem geta séð um sig sjálfir og hafa kannski yndi af því og lítið annað að gera en að fá útborgað og borga sína dvöl, matarkostnað sinn og leigu, sína klippingu og sína tásnyrtingu og haft ráð á því og séð um það sjálfir. Það er ekki það margt sem fólkið okkar hefur fyrir stafni sem lýtur að því að halda mannlegri reisn ef við ætlum að svipta þau fjárræði og sjálfræði. Það er það sem við erum að gera. Við komum fram við þetta fullorðna fólk eins og unglinga heima sem fá vasapeninga frá pabba og mömmu eftir því hvað þeir eru duglegir að aðstoða við heimilisstörfin. Það er hægt að semja við unglinginn sinn um vasapeninga.

Ég vona það, frú forseti, að ég þurfi ekki að koma hérna í sjötta sinn til að berjast fyrir eðlilegum mannréttindum í samfélagi sem gerir ekki annað en að skáka í því skjólinu að hér séum við ekkert nema blómstrandi mannréttindabelgir í allar áttir og við virðum mannréttindi alls staðar nema þegar kemur að þeim sem eru búnir að erja jörðina í sveita síns andlits, eru orðnir fullorðnir, eru komnir á lokaæviskeiði sitt. Þá ætlum við, frú forseti, að svipta þá þeim mannréttindum að fá að halda sinni reisn og halda því sem heitir fjárræði sem við fáum við 18 ára aldur og sjálfræði sem við fáum við sama aldur.

Ég skora á stjórnvöld að taka utan um málið. Það er ekki eins og það sé verið að kreista ríkissjóð og krefjast þess að hann fari að ausa út peningum þessarar þingsályktunartillögu vegna. Það er svo langt í frá.

Frú forseti. Gerum efri árin að gæðaárum. Komum fram við fólkið okkar eins og við viljum að sé komið fram okkur sjálf. Hættum að skerða mannréttindi. Hættum að svipta fólk sjálfræði, hvað þá fjárræði. Samþykkjum þingsályktunartillögu Flokks fólksins um afnám á vasapeningafyrirkomulaginu.