Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

staða heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

[15:35]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegi forseti. Í síðustu kjördæmaviku heimsótti þingflokkur Viðreisnar m.a. Vestmannaeyjar og kynnti sér alls konar starfsemi þar, þar á meðal á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum. Þar er greinilega verið að vinna mjög gott starf undir miklu álagi og sárri vöntun á starfsfólki. Ég fékk á tilfinninguna að margir væru hreinlega að þrotum komnir og það væri bráðnauðsynlegt að bæta við starfsfólki. Því miður hefur það gengið erfiðlega. Þeir læknar sem þarna starfa eiga t.d. mjög erfitt með að taka sér frí vegna þess að ekki fæst afleysing og þegar þeir fá tækifæri til að vera heima við eru þeir alltaf með símann á sér á bakvakt og þurfa því að hlaupa til ef eitthvað kemur upp á. Þá var einnig nefnt að flutningur sjúklinga á Landspítalann væri óviðunandi og að sjúklingar hafi oft þurft að bíða allt of lengi eftir að vera fluttir upp á land. Slíkt getur haft mikla hættu í för með sér og getur hreinlega ráðið úrslitum um líf eða dauða.

Ég vil því spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvaða lausnir sér hann fyrir sér til að leysa úr þessum sérstaka vanda Vestmannaeyja. Væri t.d. hægt að hafa sjúkraþyrlu staðsetta í Vestmannaeyjum til að hægt væri að flytja sjúklinga á Landspítala með stuttum fyrirvara? Sér ráðherra fyrir sér einhverjar lausnir á mönnunarvanda stofnunarinnar? Er verið að taka sérstakt tillit til landfræðilegrar stöðu Vestmannaeyja þegar kemur að því að útdeila fjármagni til heilbrigðisstofnana? Og að lokum: Sér ráðherra fyrir sér einhverjar aðrar lausnir þegar kemur að því að leysa þessa stöðu eða er bara hreinlega búið að gefast upp fyrir verkefninu?