Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

efling löggæslu á Vestfjörðum.

[15:45]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Já, ég held að það sé margt hægt að gera í því að efla þessar starfsstöðvar úti á landi almennt séð. Í tilfelli lögreglunnar þá er með nýjum áorðnum breytingum sem tilkynntar hafa verið um eflingu lögreglu um allt land einmitt gert ráð fyrir því að fjölga í lögreglunni á Patreksfirði, í því lögregluumdæmi.

Varðandi það hvort færa eigi störf frá sýslumannsskrifstofunni á Ísafirði yfir á Patreksfjörð þá lít ég svo á að það þurfi að skoða þetta í stærra samhengi. Þannig er nú staðan í þessum málum almennt séð, að það er mikil stafræn þróun sem hefur átt sér stað með aukningu á rafrænni þjónustu. Heimsóknum er að fækka mjög mikið á skrifstofu sýslumanna almennt og þannig mun þróunin verða áfram. Störfin eru að breytast, þau eru að fara úr því að vera almenn afgreiðslustörf, þar sem heimsóknum er að fækka mjög mikið, í það að verða heldur flóknari starfsstöðvar. Til að geta sinnt þeim verkefnum inn í framtíðina þarf starfsfólk með aðra menntun og aðra þekkingu og reynslu en almennt gerist í dag. Þetta er þróun sem á sér nú stað nokkuð hratt.

Það er á grundvelli þessarar þróunar og þess sem bent hefur verið á í skýrslu Ríkisendurskoðunar og af hálfu fjármálaráðuneytisins að það er nauðsynlegt að endurskoða þessa stofnanauppbyggingu, fækka ríkisstofnunum sem eru fámennar. Á grundvelli þessa hef ég verið að leggja til að sýslumannsembættin séu einmitt sameinuð þannig að hægt sé að færa á landsvísu fleiri verkefni, og þar með að styrkja þessar starfsstöðvar, á grundvelli þeirrar stafrænu þróunar og rafrænu þjónustu sem er í svo vaxandi mæli að verða hluti af þessari starfsemi.