Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga og vinnsla persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

476. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir hönd allsherjar- og menntamálanefndar fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á persónuverndarlögum. Við höfum fengið til okkar gesti og fjallað um málið og fengið margar umsagnir. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, sem varða málsmeðferð kvartana hjá Persónuvernd, þvingunarúrræði og gjaldtökuheimild stofnunarinnar og undanþágur frá upplýsinga- og aðgangsrétti skráðra einstaklinga.

Svo ég nefni það strax, frú forseti, þá var samstaða um það í nefndinni að afgreiða málið með því að samþykkja 3. gr., sem ég ætla að fara yfir á eftir, en ekki aðrar greinar frumvarpsins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem ætlað er að einfalda málsmeðferð hjá Persónuvernd en samkvæmt 2. mgr. 39. gr. persónuverndarlaga á sérhver skráður einstaklingur eða fulltrúi hans rétt á að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann brjóti í bága við reglugerðina eða ákvæði laganna og ber stofnuninni þá að úrskurða um hvort brot hafi átt sér stað. Með frumvarpinu er lagt til að lokamálsliður 2. mgr. 39. gr. laganna verði felldur brott þannig að afnumin verði sú skylda Persónuverndar að ljúka hverju kvörtunarmáli með úrskurði. Í greinargerð með frumvarpinu segir hvað þetta varðar:

„Persónuverndarlögin ganga að þessu leyti lengra en reglugerð (ESB) 2016/679, sem ekki mælir fyrir um að eftirlitsyfirvöld úrskurði í öllum kvörtunarmálum. Í skýringu í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 90/2018 (þskj. 1029, mál nr. 622 á 148. lögþ.) kemur enda fram að umræddur málsliður sé sérákvæði. Í framkvæmd hefur þetta leitt til þess að Persónuvernd þarf ávallt að úrskurða í öllum kvörtunarmálum sem henni berast.“

Í umsögn Persónuverndar um málið segir enn fremur hvað þetta varðar:

„Í framkvæmd hefur þessi skylda 2. mgr. 39. gr. laganna leitt til þess að allar kvartanir sem berast stofnuninni þurfa að fara í hefðbundna stjórnsýslumeðferð þar sem sinna þarf rannsóknarskyldu, veita andmælarétt o.s.frv., auk þess sem útbúa þarf rökstuddan úrskurð í hverju máli. Er það gert án tillits til þess hvaða hagsmunir eru undir í hvert sinn, hvert umfang málsins og líkleg áhrif þess eru, hvort líkur eru á því að lög hafi verið brotin, eða ekki og hvort ágreiningurinn varðar málefni sem stofnunin hefur þegar tekið til afstöðu til í eldri málum.“

Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að Persónuvernd ákveði hvort kvörtun sem berst gefi nægar ástæður til rannsóknar og getur úrskurðað um hvort brot hafi átt sér stað. Persónuvernd skal upplýsa þann sem kvartar um framvindu og niðurstöðu máls innan hæfilegs tíma og um heimild hans til að bera ákvarðanir og málsmeðferð stofnunarinnar undir dómstóla. Með ákvæðinu eru því jafnframt lagðar til breytingar til að tryggja réttarvernd þeirra sem kvarta til Persónuverndar en munu ef til vill ekki fá úrskurð í máli sínu. Nefndin telur að það sé til hagsbóta fyrir þá sem kvarta til stofnunarinnar að fá skjót svör og niðurstöðu í sínum málum, ávallt þurfi að gæta að því að sá sem kvartar fái upplýsingar um framvindu og niðurstöðu sinna mála innan hæfilegs tíma. Að auki má geta þess að Persónuvernd starfar á grundvelli stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og er jafnframt bundin af meginreglum stjórnsýsluréttar.

Nefndin tekur undir mikilvægi þessarar breytingar enda ganga persónuverndarlögin lengra en reglugerðin kveður á um hvað varðar skyldu til að úrskurða í öllum málum. Fyrir nefndinni kom m.a. fram að sambærileg skylda hafi almennt ekki verið lögfest annars staðar á Norðurlöndunum. Í ljósi þess að stofnuninni berast ýmiss konar kvartanir er æskilegt að hægt sé að leysa úr málum með öðrum hætti en að úrskurða ef mál geta fengið fullnægjandi meðferð, t.d. með upplýsingagjöf eða vísun til fordæma sem liggja fyrir. Þá er Persónuvernd heimilt að mæla fyrir um ráðstafanir til úrbóta samkvæmt 42. gr. laganna og að taka mál til skoðunar að eigin frumkvæði samkvæmt 3. mgr. 39. gr.

Loks vill nefndin undirstrika mikilvægi þess að tryggja að Persónuvernd geti sinnt upplýsingagjöf og veitt leiðbeiningar til einstaklinga sem og fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga varðandi persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin tekur undir það sem fram kemur í fræðslustefnu Persónuverndar árið 2023 þar sem er m.a. stefnt að því að auka leiðbeiningar til þeirra sem vinna með persónuupplýsingar og tryggja markviss samskipti við hagsmunaaðila.

Virðulegi forseti. Þetta er sú grein sem var í frumvarpinu sem við samþykkjum óbreytta og teljum mjög mikilvægt að fari í gegn. En í frumvarpinu voru einnig aðrar greinar sem að einhverju leyti kunna að vera mikilvægar en nefndin fellst ekki á að þær breytingar verði að lögum nú heldur hvetur ráðuneytið til þess að halda áfram þeirri vinnu er varðar heildarendurskoðun á lögunum. Lögin sem um ræðir eru frá 2018 og með þeim var innleidd reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 2016/679 og tók Persónuvernd þá við umfangsmiklum verkefnum og auknum valdheimildum, auk þess sem ör stafræn þróun síðustu ár hefur haft mikil áhrif á starfsemi og málafjölda hjá stofnuninni. Allsherjar- og menntamálanefnd telur mikilvægt að huga að því að stytta málsmeðferðartíma og auka skilvirkni hjá Persónuvernd en jafnframt þurfi að huga að þeim víðtæku áhrifum sem löggjöfin hefur haft m.a. á atvinnulífið og sveitarfélögin og að jafnframt verði horft til þess þegar lagt er mat á þá reynslu sem fengist hefur af framkvæmdinni undanfarin ár. Nefndin telur fullt tilefni til að fara í nánari greiningu á því hvernig löggjöfin hefur reynst með hliðsjón af túlkun og framkvæmd og skoðað verði hvort þörf sé á frekari breytingum eða endurskoðun á löggjöfinni, enda um að ræða flókna og umfangsmikla löggjöf sem felur í sér innleiðingu á Evrópureglum. Með hliðsjón af því leggur nefndin jafnframt til að löggjöfin verði rýnd með tilliti til þess í hvaða tilvikum hafi verið gengið lengra en reglugerðin gerir kröfu um. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að frekari breytingar á lögum um persónuvernd séu til skoðunar sem þarfnist aðkomu fleiri aðila þar sem þær breytingar eru ekki eingöngu á málefnasviði dómsmálaráðuneytisins. Því séu nú lagðar til breytingar sem þykja aðkallandi og nauðsynlegar.

Nefndin er upplýst um að vinna sé þegar hafin í dómsmálaráðuneytinu varðandi frekari endurskoðun á persónuverndarlögum. Með hliðsjón af því leggur nefndin til að 3. gr. frumvarpsins verði samþykkt, enda sé það mikilvægt til að mæta þeim áskorunum sem felast í miklum málafjölda hjá Persónuvernd, en að aðrir þættir frumvarpsins bíði þeirrar endurskoðunar á framkvæmd persónuverndarlaganna sem nú þegar er í gangi í dómsmálaráðuneytinu. Nefndin beinir því til ráðherra að þeirri vinnu verði flýtt eins og kostur er en undirstrikar mikilvægi þess að vinnunni verði framhaldið í samráði við helstu sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Breytingar nefndarinnar eru því þær að 1., 2., 4., 5. og 6. gr. frumvarpsins falli brott og að fyrirsögn frumvarpsins verði: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018 (málsmeðferð).

Undir nefndarálitið rita, auk þeirrar sem hér stendur, hv. þingmenn Bryndís Haraldsdóttir, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Helga Vala Helgadóttir, Jódís Skúladóttir, Jóhann Friðrik Friðriksson og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Sigmar Guðmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur álitinu.

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka að það er eindregin afstaða nefndarinnar að ráðuneytið skuli flýta þeirri vinnu sem hafin er um heildarendurskoðun á persónuverndarlögunum, horfa til þess hvað hefur vel gengið og hvað hefur síður gengið vel og hlusta á hagsmunaaðila sem hafa margir hverjir bent á þörf á úrbótum og vil ég þar sérstaklega nefna atvinnulífið og sveitarfélögin í þeim efnum. Við erum þarna að velta sérstaklega fyrir okkur því sem hefur í pólitísku máli verið nefnt gullhúðun á reglugerð þegar hún var innleidd og hvetjum til þess að þessi endurskoðun fari fram hið fyrsta. En við erum algjörlega sammála um að 3. gr. frumvarpsins sé mikilvæg og þar af leiðandi leggjum við til að það ákvæði verði hér samþykkt.