Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

heilbrigðisstarfsmenn.

856. mál
[15:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Við í velferðarnefnd eigum auðvitað eftir að kynna okkur þetta mál vel og lesa greinargerðina, lúslesa hana, og hlusta á gesti sem vilja ráðleggja okkur varðandi afgreiðslu málsins. En setjum svo að fórnarlamb heimilisofbeldis biðji ekki um að lögreglu sé tilkynnt um ofbeldið og að á heimilinu þar sem ofbeldið hefur átt sér stað séu börn og heilbrigðisstarfsmenn viti af þessu, sjái alveg hvað er í gangi og hafi áhyggjur af áhrifum á heilsu barna og líðan þeirra sem verða vitni að ofbeldinu, til hvaða ráða geta þeir gripið? Þetta er snúið mál og ég skil þetta með fælingarmáttinn en þetta má heldur ekki vera skilgreint svo þröngt að það sé ekki hægt að bregðast við og bjarga börnum og fólki sem býr greinilega við hættulegar aðstæður, bara vegna þess að fórnarlambið biður ekki skýrt um að hlutirnir séu tilkynntir til lögreglu. Nú er ég að velta vöngum, frú forseti, en í framhaldinu mun ég og forseti, sem nú situr á forsetastóli, fara vandlega yfir þetta mál.