Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

rekstraraðilar sérhæfðra sjóða o.fl.

880. mál
[18:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, lögum um verðbréfasjóði og fleiri lögum. Frumvarpið er á þskj. 1376 og er mál nr. 880. Frumvarpið felur í sér tillögu um innleiðingu á tveimur Evrópugerðum, annars vegar reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins ESB, nr. 2019/1156, um að auðvelda dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri og um breytingu á reglugerðum ESB nr. 345/2013, nr. 346/ 2013 og 1286/2014, og hins vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB), nr. 2019/1160 um breytingu á tilskipunum 2009/65/EB og 2011/61/ESB að því er varðar dreifingu sjóða um sameiginlega fjárfestingu yfir landamæri.

Meginefni frumvarpsins er lögfesting þessara Evrópugerða og nauðsynlegra ákvæða þar að lútandi, svo sem um viðurlög og setningu stjórnvaldsfyrirmæla.

Helstu breytingar sem innleiðing þessara gerða hefur í för með sér eru í fyrsta lagi nýjar reglur um markaðsefni sjóða um sameiginlega fjárfestingu og kostnað og gjöld sem lögð eru á af lögbærum yfirvöldum vegna eftirlits með starfsemi sjóða yfir landamæri.

Í öðru lagi ný ákvæði í lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020, og lög um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði, nr. 31/2022, um formarkaðssetningu sjóða innan EES.

Í þriðja lagi aukin upplýsingaskylda verði breytingar á þeim gögnum sem tilkynning rekstraraðila um markaðssetningu sjóðs í öðrum ríkjum innan EES byggist á og um mögulegar afleiðingar breytinganna.

Í fjórða lagi eru lögð til ný ákvæði í lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og lög um verðbréfasjóði, nr. 116/2021, um skilyrði fyrir afturköllun ráðstafana sem gerðar hafa verið til markaðssetningar sjóða í öðrum ríkjum innan EES.

Í fimmta lagi er lagt til nýtt ákvæði í lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða um aðstöðu sem rekstraraðilar skulu hafa aðgengilega almennum fjárfestum og lagðar eru til breytingar á ákvæði um sama efni í lögum um verðbréfasjóði.

Að lokum eru lagðar til tvær breytingar sem ekki tengjast með beinum hætti innleiðingu fyrrgreindra Evrópugerða en eru taldar æskilegar til að tryggja samræmi við aðra löggjöf á fjármálamarkaði.

Annars vegar að hámarksfjárhæð stjórnvaldssekta sem heimilt er að leggja á einstaklinga vegna brota gegn ákvæðum laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og laga um evrópska áhættufjármagnssjóði og evrópska félagslega framtakssjóði verði 800 millj. kr. í stað 65 millj. kr.

Hins vegar er lagt til að nýr kafli bætist við lög um rekstraraðila sérhæfðra sjóða um heimildir sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta til að vera reknir sem höfuðsjóðir og fylgisjóðir að uppfylltum sambærilegum kröfum og gildir samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.

Virðulegi forseti. Þau ákvæði sem lögð eru til í frumvarpinu koma til með að hafa áhrif á alla rekstraraðila sjóða um sameiginlega fjárfestingu hér á landi. Um er að ræða ríflega 20 rekstraraðila. Með Evrópugerðunum er regluverk um dreifingu sjóða yfir landamæri einfaldað og reglurnar samræmdar á innri markaðnum. Ekki er talið að áhrif þess að kveðið verði á um heimildir sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta til að vera reknir sem höfuðsjóðir og fylgisjóðir verði mikil. Ekki eru reknir innlendir verðbréfasjóðir á þessu formi í dag þótt kveðið sé á um slíka heimild í lögum um verðbréfasjóði.

Gert er ráð fyrir auknum umsvifum Fjármálaeftirlitsins vegna fyrirhugaðrar lagasetningar en talið að áhrifin rúmist innan rekstraráætlana Fjármálaeftirlitsins og áhrif á ríkissjóð verði engin.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og síðan til 2. umr. hér í þinginu.