Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 90. fundur,  29. mars 2023.

búvörulög.

101. mál
[18:30]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um niðurgreiðslu á raforku til garðyrkjubænda. Með mér á frumvarpinu er þingflokkur Flokks fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

1. gr. frumvarpsins orðist svo, með leyfi forseta:

„Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 58. gr. skal ríkissjóður niðurgreiða garðyrkjubændum allan kostnað við flutning og dreifingu raforku vegna framleiðslu garðyrkjuafurða á árunum 2023, 2024, 2025 og 2026, að þeim skilyrðum uppfylltum að orkukaupin séu vegna atvinnustarfsemi, að niðurgreidd raforka sé sérmæld og fari einungis til loftræstingar eða lýsingar plantna til að örva vöxt þeirra, að framleiðslan sé ætluð til sölu og að ársnotkun sé meiri en 100 MWst á ári. Heildarfjárhæð niðurgreiðslna skv. 1. málsl. skal ekki takmarkast við heildarframlög í samningum sem íslenska ríkið gerir við framleiðendur garðyrkjuafurða.

Jafnframt skal ríkissjóður niðurgreiða garðyrkjubændum helming kostnaðar vegna uppbyggingar á dreifikerfi raforku til garðyrkjubýla, gróðrarstöðva og garðyrkjustöðva á árunum 2023, 2024, 2025 og 2026.

Heimilt er ráðherra að fela Matvælastofnun eða öðrum opinberum aðila að annast faglega umsjón með niðurgreiðslu á kostnaði við flutning og dreifingu raforku, enda sé skipulag þeirra og starfsreglur í samræmi við ákvæði laga.

Ráðherra setur reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis.“

Og 2. gr.: „ Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var áður lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi (32. mál) og er nú endurflutt.“ — Hér er ég sem sagt að flytja það í þriðja skiptið.

„Frumvarpið er að mestu leyti óbreytt en sú breyting var gerð milli 151. og 152. löggjafarþings að stuðningur skv. 1. gr. frumvarpsins tekur nú einnig til loftræstingar í gróðurhúsum, enda bentu Bændasamtökin á það í umsögn um frumvarpið á 151. löggjafarþingi að stór hluti orkunotkunar gróðurhúsa væri vegna loftræstingar.

Heimsfaraldur Covid-19 sýndi fram á það hve mikilvæg innlend matvælaframleiðsla er fyrir öryggi þjóða. Innlend matvælaframleiðsla er sérstaklega mikilvæg þegar land er jafn einangrað og viðkvæmt fyrir röskun á innflutningi á matvælum og Ísland. Í kjölfar heimsfaraldursins hefur verðbólga aukist jafnt og þétt og miklar raskanir hafa orðið á vöruflutningum. Auk þess hefur innrás Rússlands í Úkraínu haft mikil áhrif á matvælaöryggi heimsbyggðarinnar og orkuverð á meginlandi Evrópu hefur snarhækkað. Það er fyrirsjáanlegt að framangreind atriði geta hæglega haft mikil áhrif á verðlag matvöru og einnig matvælaöryggi almennt.

Þess vegna er fullt tilefni til að ráðast í stórsókn í framleiðslu garðyrkjuafurða og fella niður þá múra sem standa í vegi fyrir því að efla megi innlenda framleiðslu. Aukin innlend matvælaframleiðsla mun hafa jákvæð áhrif á verðlag matvöru og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Þar sem frumvarpið leggur til auknar endurgreiðslur vegna kostnaðar sem fellur til frá ársbyrjun 2023 mun það hafa atvinnuskapandi áhrif þegar við gildistöku. Því er brýnt að frumvarpið verði samþykkt sem fyrst.

Framleiðsla garðyrkjuafurða hefur á síðustu áratugum eflst til muna á Íslandi. Þó að landið sé harðbýlt hafa garðyrkjubændur unnið mikið þrekvirki við að koma upp aðstöðu til að rækta hér matvæli sem áður þótti óhugsandi að rækta á norðurslóðum. Íslenskur almenningur hefur vegna framþróunar í garðyrkju haft greiðan aðgang að vörum sem áður þóttu munaðarvörur. Aðgengi að ódýrri orku hefur átt stóran þátt í uppbyggingu garðyrkju á Íslandi. Raforka er nauðsynleg í ylrækt til að lýsa og hita gróðurhús. Raforkuverð hefur því bein áhrif á það hversu mikið garðyrkjubændur geta framleitt og á hvaða verði þeir selja afurðir sínar til neytenda.

Raforka er nú markaðsvara og því þarf að greiða fyrir hana markaðsverð, sem sveiflast eftir framboði og eftirspurn. Til að stuðla að aukinni framleiðslu garðyrkjuafurða hefur íslenska ríkið niðurgreitt að ákveðnu marki kostnað garðyrkjubænda við flutning og dreifingu á raforku. Þessar niðurgreiðslur gera garðyrkjubændum kleift að selja vörur á samkeppnishæfu verði þrátt fyrir mikið framboð af innfluttu erlendu grænmeti.

Þó eru ákveðnir vankantar á núverandi fyrirkomulagi. Niðurgreiðslur takmarkast við fyrirframákveðin heildarframlög á ári hverju og hver einstakur framleiðandi getur aðeins fengið tiltekinn hluta af niðurgreiðslum. Þá er í búvörusamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða kveðið á um að framleiðendur skuli ávallt greiða að lágmarki 5% kostnaðar við flutning og dreifingu.“ — Nú þegar hafa stjórnvöld endurskoðað samninga við garðyrkjubændur og niðurgreiðslur hafa verið auknar að einhverju marki, þ.e. um 385 millj. kr. á ári. Það er jákvætt fyrsta skref. Það er þó nauðsynlegt að ganga lengra.

„Í frumvarpi þessu er lagt til að á næstu fjórum árum verði niðurgreiddur allur kostnaður við flutning og dreifingu raforku til framleiðslu á garðyrkjuafurðum. Ríkið verði því skuldbundið til að niðurgreiða kostnað óháð því hvort heildarkostnaður fari fram úr þeim viðmiðum sem kveðið er á um í samningum milli ríkisins og garðyrkjubænda og þeim viðmiðum sem kveða á um hámark hlutdeildar einstakra framleiðenda af heildarniðurgreiðslum.

Þegar ætlunin er að hefja framleiðslu garðyrkjuafurða eða auka við framleiðsluna þarf að byggja upp dreifikerfi eða stækka dreifikerfi til að auka flutningsgetu þess. Garðyrkjubændur geta alla jafna ekki valið milli dreifiaðila og þurfa að greiða háar fjárhæðir fyrir uppbyggingu dreifikerfa. Sá kostnaður er ekki niðurgreiddur og þessi rekstrarskilyrði mynda því ákveðna hindrun fyrir garðyrkjubændur sem gerir þeim erfitt fyrir ef þeir hyggjast auka við framleiðslu sína og dregur úr nýliðun í greininni. Stofnkostnaður er mikill og fastur rekstrarkostnaður einnig umtalsverður. Þess vegna er lagt til að ríkið niðurgreiði helming kostnaðar garðyrkjubænda við uppbyggingu á dreifikerfi raforku til garðyrkjubýla, gróðrarstöðva og garðyrkjustöðva.

Verði þetta frumvarp að lögum skapast kjöraðstæður fyrir garðyrkjubændur á Íslandi til að efla starfsemi sína og auka framleiðslu. Því er viðbúið að innlend framleiðsla á garðyrkjuafurðum aukist til muna og að fjöldi starfa skapist í greininni. Þá hefur aukin framleiðsla garðyrkjuafurða jákvæð áhrif í öðrum greinum atvinnulífsins, svo sem byggingariðnaði.“

Ég ætlaði ekki að fara sérstaklega í einstakar greinar frumvarpsins en ætla hins vegar að segja frá því að frá því að Flokkur fólksins varð til þá höfum við talað um ylræktina okkar og framleiðslu á grænmeti og ávöxtum, hvar og hvenær sem það hefur komið til tals, og mælt fyrir því í fyrsta lagi að við getum orðið sjálfbær. Í öðru lagi: Við erum með hreina græna orku, við erum með hreint yndislegt vatn, það getur enginn í heiminum framleitt þessa vöru hreinna og betur en við, ekki nema eins. Við erum algerlega í forystu hvað það varðar. Ef við værum einhvern tímann tilbúin til að líta til framtíðar þá gætum við séð að þetta gæti orðið enn ein stoðin fyrir okkur til að afla tekna fyrir ríkissjóð. Við getum byggt upp. Við erum með frábæra Íslandsstofu sem hefur verið að markaðssetja okkur, okkar afurðir og fyrirtæki landsins á erlendri grund með stórkostlegum árangri, algerlega stórkostlegum árangri. Þetta væri enn eitt verkefnið, þ.e. að markaðssetja íslenska hreina afurð, sem grænmetið okkar og ávextirnir okkar eru, um leið og við greiðum götuna fyrir grænmetisbændur og eflum þá til dáða.

Í raun og veru, frú forseti, gerir þetta frumvarp ekkert annað en að segja: Hér höfum við allt að vinna. Þetta er tækifæri fyrir okkur sem þjóð til framtíðar. Við skulum ekki gleyma því. Og alveg eins og kemur fram og ég sagði áðan: Hversu mikilvægt er það okkur að tryggja hér innlenda matvælaframleiðslu að öllu leyti eins og kostur er? Við vitum jú aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér og það sýndi sig sannarlega þegar innrásin í Úkraínu, þau hörmulegu atvik, átti sér stað fyrir ríflega ári. Ég skora því á stjórnvöld, ég skora bara á okkur öll, að horfa út fyrir rammann og sjá hversu ofboðslega mikil tækifærin eru, tækifærin fyrir okkur til að skapa okkur framtíðarútflutningsgrein sem byggir eingöngu á hreinni orku, hreinni afurð og gæti gefið okkur stórkostlegar tekjur um leið og við værum náttúrlega sjálfbær sjálf.

Svona til gamans, þó að það sé ekki til gamans, þá langar mig að nefna það að þegar ég var að byrja hér á þingi þá var ég að lesa grein sem kom frá dönskum ráðamönnum. Þeir voru algjörlega miður sín yfir því að það hafði komið í ljós, eftir að það hafði þurft að taka þvagsýni hjá dönskum leikskólabörnum, að það var alveg gríðarlega mikið magn af skordýraeitri í þessum prufum. Eðli málsins samkvæmt þá hópuðust þingmenn hver um annan þveran til að láta mæla hvernig ástandið væri á sínu þvagi og útkoman var nákvæmlega sú sem þeir óttuðust, fullt af skordýraeitri, hellingur af skordýraeitri. Þetta fréttist víðar og Þjóðverjar fóru líka að athuga þetta. Sama sagan, mikið magn af skordýraeitri. Og hvers vegna? Hvaðan kom þetta? Ég ætti nú kannski ekki einu sinni að segja það en jú, í einhverju suðrænu fögru landi þar sem var ótæpilega mikið notað af skordýraeitri þá var þetta rakið til agúrkna. Ég segi því: Þetta kæmi aldrei til álita hér, aldrei nokkurn tíma. Hreina græna orkan okkar og sá möguleiki sem við höfum til þess einmitt að hasla okkur völl til fyrirmyndar á erlendri grund, hann liggur m.a. í því að gefa garðyrkjubændum kost á að verða stórir og sterkir og búa til algerlega nýja útflutningsgrein til framtíðar sem er ylræktin okkar, grænmetið okkar, ávextirnir okkar.