Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Það er ekki af léttúð sem lögð hefur verið fyrir Alþingi Íslendinga vantrauststillaga á hæstv. dómsmálaráðherra Jón Gunnarsson. Það er af virðingu við lýðræðið, virðingu við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og virðingu við þrískiptingu ríkisvaldsins sem við finnum okkur knúin til að stíga fram fyrir skjöldu og verja þessar mikilvægustu burðarstoðir stjórnskipan landsins. Það er af virðingu við verkin sem við erum að vinna, virðingu við löggjafann, þann sem er kjörinn af alþýðu landsins, kjósendum landsins, til þess að setja reglur sem almenningur og allir aðrir eru skikkaðir til að fylgja. Geðþóttaákvarðanir einstakra ráðherra eru algerlega með öllu ólíðandi. Það sem við höfum þurft að verða vitni að upp á síðkastið í sambandi við nákvæmlega það kemur ekki í veg fyrir, eins og t.d. hæstv. ráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir segir hér áðan, að löggjafinn geti krafist gagna frá Útlendingastofnun. (Gripið fram í.) Hvenær hefur það aftur verið í umræðunni? Hvenær hefur það komið til greina? Það er hafið yfir allan vafa. Það er hæstv. dómsmálaráðherra sem ber ábyrgð á því að þau gögn berist sem við biðjum um í hvaða fastanefnd þingsins sem er og fyrir hvaða ráðherra sem er, fyrir hvaða kjörna ráðherra sem er, æðsta embættismann í framkvæmdarvaldinu, það er alveg sama, þeir verða að verða við þeirri ósk. Þeim ber skylda til þess að verða við þeirri ósk og þeir hafa viku til þess. Það er ekki flóknara en það.

Við þurfum ekki að flækja málin, við þurfum ekki að draga í efa hvað raunverulega stendur skrifað í löggjöfinni. Lagabókstafurinn er skýr. Hann er skýr; ráðherra ber skylda til þess að verða við því ef fjórðungur nefndar óskar eftir gögnum, þá á hann að verða við því. Í þessu tilviki sem hér um ræðir, þrátt fyrir að það eigi ekki að vera meginstefið hér hvort það hafi tekist á einhverjum ákveðnum tíma að veita ríkisborgararétt, hvort það hafi hamlað þinginu í störfum þess að nokkru leyti, um það snýst þetta mál alls ekki neitt — þetta snýst um geðþótta ákveðins hæstv. ráðherra. Þetta snýst algerlega um það hvort hann persónulega og prívat sé hafinn yfir lög og reglur. Þau skilaboð, herra forseti, út í samfélagið eru síðasta sort. Hvernig þessi framkoma vegur að þrískiptingu ríkisvaldsins, vegur að þingræðinu okkar, við getum ekki látið kyrrt liggja. Þeir þingmenn sem loka augunum fyrir því og láta sig það engu varða hvernig við erum að rugga bátnum, hvernig við erum að láta reka á reiðanum þá stjórnskipan sem við höfum verið stolt af frá því að við eignuðumst okkar frábæra lýðveldi 1994, urðum sjálfstæð og frjáls þjóð — við byggðum þetta upp saman, þetta sem við þekkjum, stjórnskipan landsins, allt sem hefur verið okkur heilagt, löggjöfin sem við eigum að vera stolt af að hafa sett og hafa gert það í góðri trú. En slík og þvílík léttúð gagnvart lögunum má aldrei líðast. Fordæmin sem það mun skila til framtíðar ef við lokum augunum fyrir því að slíkar geðþóttaákvarðanir eru teknar og valtað yfir gildandi rétt á skítugum skónum eins og hér er gert — það má aldrei líðast.

Virðulegi forseti. Það er búið að vera ákveðin umræða um það hvort og hvernig við ættum virkilega að stíga fram og hvernig við gætum varið í rauninni það sem er okkur hjartans mál og á að vera okkur öllum hjartans mál í hvaða flokki sem við stöndum. Niðurstaðan var aðeins ein og gat aldrei orðið önnur: Við verðum að stíga fram fyrir skjöldu og við verðum að gera það sem rétt er. Forseti og alþingismenn, hæstv. ráðherrar, það eina rétta sem við getum gert í stöðunni núna, það eina sem við eigum að gera í stöðunni núna er að samþykkja vantraust á hæstv. dómsmálaráðherra og það er að standa með stjórnarskrá lýðveldisins, þrískiptingu ríkisvaldsins, standa með grundvallarstoðum réttarríkisins, standa með stjórnskipan landsins.