Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 91. fundur,  30. mars 2023.

vantraust á dómsmálaráðherra.

924. mál
[11:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Það skiptir miklu máli að við sem kjörin erum á Alþingi Íslendinga virðum skýrar reglur um þrígreiningu ríkisvalds. Það er ástæðan fyrir því að lýðræðisríki um allan heim viðhafa nákvæmlega þetta, aðgreiningu og valddreifingu milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Í þeim löndum hefur það afleiðingar ef þarna verður misbrestur á. Það er einmitt þetta sem við erum að fjalla um hér í dag. Það er þetta sem vantraustið varðar. Nei, hæstv. forsætisráðherra. Þetta vantraust fjallar ekki um einstaklinginn Jón Gunnarsson og mögulegan vinskap eða fjandskap við þann mann, smjörklípur hans eða dylgjur. Nei, hæstv. fjármálaráðherra. Þetta vantraust fjallar ekki um íslenskan ríkisborgararétt sem veittur er með lögum frá Alþingi af ýmsum ástæðum, sjaldnast þó flóttafólki svo því sé haldið til haga. Nei, hæstv. utanríkisráðherra. Þetta vantraust snýst heldur ekki um það hvað okkur finnst um að Útlendingastofnun sé yfirleitt að annast umsýslu gagna um umsækjendur sem stofnuninni ber lögum samkvæmt að gera né fjallar þetta um það hvað okkur kann að finnast um það að Alþingi hafi forræði á veitingu ríkisborgararéttar eins og hefur verið frá gildistöku stjórnarskrár 1920, 1944 og með mörgum breytingum og setningu laga um íslenskan ríkisborgararétt. Nei, þetta mál fjallar einmitt ekki um það þrátt fyrir að allir hæstv. ráðherrar séu að reyna að bera slíkt á borð. Ef við, löggjafinn, erum ósammála því sem stendur í lögum ber okkur að breyta lögunum, ekki brjóta lögin. Breyta, ekki brjóta. Svo einfalt er það. Það á við um þingmenn og það á við um ráðherra.

Þetta vantraust sem við greiðum atkvæði um í dag snýst um embættisfærslu ráðherra sem fulltrúa einnar af þremur stoðum ríkisvaldsins þegar hann fyrirskipaði að undirstofnun hans skyldi ekki afhenda Alþingi Íslendinga nauðsynleg gögn svo Alþingi Íslendinga gæti sett lög í samræmi við stjórnarskrá Íslands og lög um íslenskan ríkisborgararétt. Þetta vantraust snýst um embættisfærslu ráðherra þegar hann fyrirskipaði undirstofnun sinni að fara gegn áratugalangri stjórnskipunarvenju sem myndast hafði við lagasetningu Alþingis um ríkisborgararétt tvisvar sinnum á ári. Það er hvorki á valdi ráðherra né undirstofnunar að breyta slíkri venju. Þetta veit hinn löglærði hæstv. utanríkisráðherra sem sagði Útlendingastofnun mega breyta einhliða verklagi Alþingis. Svo er auðvitað ekki og það vita allir sem hér sitja.

Hvers vegna er það nauðsynlegt lýðveldinu Íslandi og almenningi hér á landi að stjórnarliðar, öll sem eitt, standi nú með stjórnskipan Íslands í dag en ekki með stundarhagsmunum eigin fólks í stólum ráðherra? Hvers vegna? Jú, vegna þess að þetta hefur fordæmisgildi til framtíðar. Við verðum öll að hugsa um það. Það hefur aukist verulega á undanförnum misserum að leiðtogar ríkisstjórnarinnar komi fram og árétti að ríkisstjórnin sé ekki fjölskipað stjórnvald. Þannig séu þeir ábyrgðarlausir af stjórnarathöfnum hver annars, enda sjáum við að það er allur gangur á því hvort mikilvæg stjórnarmálefni séu yfirleitt borin upp við ríkisstjórnarborðið eða ekki þessa dagana. En það er ekkert verið að spyrja hæstv. ráðherra hvort þeir beri ábyrgð á stjórnarathöfnum annarra ráðherra heldur um skoðun á þeim athöfnum. Hér í dag erum við að fjalla um lögbrot ráðherra og valdbeitingu hans gagnvart Alþingi Íslendinga og þá verður þingheimur allur að stíga fast niður fæti og senda skýr skilaboð um að við slíkt verði ekki unað. Að ráðherra vinni með embættisfærslum sínum gegn lögbundnum störfum þingsins er alvarlegur hlutur sem má aldrei endurtaka sig.

Frú forseti. Hin pólitíska ábyrgð ráðherra gagnvart þinginu birtist í því að þeir sitja í krafti meiri hluta þings. Þannig má segja að hin pólitíska ábyrgð ráðherra smitist á einhvern hátt yfir á aðra þingmenn stjórnarflokkanna. Ég hvet alla þingmenn á Alþingi Íslendinga, hvar í flokki sem þau standa, að hugsa hér í dag fyrst og fremst til framtíðar, til stjórnskipunar landsins og velja þar að greiða atkvæði með meiri hagsmunum frekar en minni. Almenningur allur til nútíðar og framtíðar á rétt á því.