Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

Störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Yfirlýst ástæða þessa ríkisstjórnarsamstarfs frá 2017 var að vernda stöðugleika og bjarga heilbrigðiskerfinu. Við ræðum á eftir meint afrek stjórnvalda í efnahagsmálum en hér er ný örsaga úr heilbrigðiskerfinu:

Ung kona slasast illa erlendis. Eftir nauðsynlega meðferð er hún flutt heim í faðm heilbrigðiskerfisins okkar, úrvinda og algerlega ósjálfbjarga en þakklát fyrir að vera komin heim í öryggið, í faðm heilbrigðiskerfisins. En það tók ekki nema örfáa klukkutíma fyrir þá öryggistilfinningu að hverfa.

Lýsing konunnar er martraðarkennd: Við komuna á Landspítalann var maðurinn hennar beðinn um að gera sig gagnlegan og tæma þvagpokann. Ástandið væri nefnilega nákvæmlega eins og því hafi verið lýst í sketsum áramótaskaupsins: Læknaðu þig heima. Konan segir: Ég hafði þrisvar staðið upp frá því að ég fór í víravirkisaðgerðina á mánudag og í hvert skipti með helvískan dúndrandi slátt, þrýsting og verk niður fótinn sem má á engum tímapunkti stíga í eða snerta nokkuð. Konunni var fljótlega sagt að það væri best að hún færi heim. Fæ ég þvaglegginn heim? Nei, fólk er ekki sent heim með þvaglegg. Get ég fengið ráðgjöf um hvernig ég ber mig að heima? Nei, það er enginn sjúkraþjálfari í húsi. Samt vildi konan ekki vera þarna lengur, fannst hún ekki örugg. Fjölskyldan fór að redda hlutum sem þurftu að vera til staðar á heimilinu og eftir að hafa skriðið upp tröppurnar heima hjá sér lagðist konan í rúmið stjörf af þreytu en með gæsahúð af öryggi, sloppin.

Herra forseti. Þetta kerfi er ekki boðlegt neinum, ekki sjúklingum, ekki aðstandendum og alls ekki starfsfólki. Og ég spyr: Eru stjórnvöld einfaldlega hætt við yfirlýstan björgunarleiðangur sem mikið var talað um fyrir sex árum?