Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

Störf þingsins.

[10:46]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Fjármálaáætlun verður rædd hér í dag. Ríkisstjórnin hefur sameinað krafta sína og leggur nú fram áætlun sem ætti að slá á frekari vöxt verðbólgunnar. Ríkisfjármálum hefur verið beitt með markvissum hætti með auknu aðhaldi, tekjuöflun og frestun framkvæmda. Allt eru þetta þekkt verkfæri í hagkerfinu. Þetta hljómar kannski ekki vel í eyrum fólks en góðu fréttirnar eru þó þær að á sama tíma á að standa vörð um mikilvæga grunnþjónustu eins og velferðarþjónustu og heilbrigðisþjónustu sem hefur verið efld og staðið með á undanförnum árum. Það á að standa sérstaklega með þeim hópum sem erfiðast eiga með að mæta áhrifum verðbólgunnar.

Virðulegi forseti. Í gær bárust þær ánægjulegu fréttir að búið væri að landa samningum um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári. Með þessum samningi mun afkastageta heilbrigðiskerfisins nýtast betur og leiðir það til þess að biðtími sjúklinga eftir þessari mikilvægu þjónustu styttist. Þótt eitt aðalmarkmiðið sé að nýta betur afkastagetu heilbrigðiskerfisins þá snúast þessir samningar ekki síst um að jafna aðgengi einstaklinga að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag.

Hæstv. heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur svo sannarlega látið hendur standa fram úr ermum og gengið í verkin. Biðlisti í liðskiptaaðgerðum hjá opinberum heilbrigðisstofnunum taldi í upphafi árs 2.000 manns. Þeir sem hafa beðið á þeim lista þekkja hversu erfitt það er að hafa liðið mikla vanlíðan og margir hverjir hafa verið frá vinnu vegna þessa í langan tíma með tilheyrandi afleiðingum. Samningum um fjölgun liðskiptaaðgerða sem og aðrir samningar sem hafa verið gerðir um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu skila betri líðan hjá þúsundum einstaklinga.

Í framlagðri fjármálaáætlun er stefnt að því að áfram verði unnið að lækkun greiðsluþátttöku sjúkratryggðra einstaklinga í heilbrigðisþjónustu ásamt því að gera hana skilvirkari. Við hljótum að geta fagnað því. Gleðilega páska.