Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

Störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Herra forseti. Í dag er dagur sýnileika trans fólks, dagur sem við getum notað til að fagna trans fólki og þeirra fjölbreytileika og góður dagur til að sýna stuðning við þau í verki, til að sýna þeim ást og kærleika, til að veita þeim það pláss sem þau eiga skilið.

Lög um kynrænt sjálfræði voru stórt skref í þessa átt og viðurkenndu tilverurétt trans fólks á hátt sem ekki hafði verið gert áður. En við verðum að horfast í augu við það að þeim hefur ekki verið framfylgt sem skyldi. Við erum enn þá að berjast við það að kerfið tekur t.d. nafnabreytingum og einföldum atriðum, eins og útgáfu vegabréfa, ekki með hætti sem þjónar trans fólki nægilega vel og enn er ekki búið að skera á hnútinn varðandi aðgang trans fólks að ýmsu almannarými, eins og salernum og búningsaðstöðu. Drög að hollustuháttareglugerð, sem nauðsynleg er til að ná því fram, voru kynnt fyrir ári. Það átti að skrifa undir þau í lok febrúar sl. en enn bólar ekki á neinu frá ráðuneytinu.

En kannski er ein stærsta brotalömin aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Mig langar að vitna hér í viðtal sem birtist í síðasta eintaki Heimildarinnar, þar sem var rætt við Bríeti Blæ Jóhannsdóttur, sem grínaðist með það þegar hún sótti um kynleiðréttingu 26 ára að hún myndi bíða til þrítugs. Hún er að verða 29 ára núna og bíður enn. Af því að við festum okkur kannski stundum í tæknilegu atriðunum, þá langar mig að lesa hér upp hvað þessi bið þýðir fyrir einstakling, með leyfi forseta:

„Ég er að eyða árunum af lífi mínu, þar sem ég á að vera að deita, láta brjóta í mér hjartað, brjóta önnur hjörtu, stunda kynlíf á óábyrgan hátt og elska, í að bíða. Lífið mitt er stopp og er búið að vera það lengi, ég er svo löngu tilbúin að halda áfram og gera eitthvað annað.“

Trans fólk er náttúrlega eins og allt annað fólk. (Forseti hringir.) Það vill geta gert stóra hluti og smáa, og við kannski áttum okkur allt of fá á því hversu margir af þessum hversdagslegu hlutum tengjast kyni. (Forseti hringir.) Þess vegna er þessi biðlisti eftir þjónustu við trans fólk ólíðandi, vegna þess að hann leyfir trans fólki ekki að vera manneskjurnar sem þau eiga að fá að vera, nákvæmlega eins og þau vilja vera.