Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 93. fundur,  31. mars 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[12:35]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Ég hélt kannski að í 10% verðbólgu, eftir tólf stýrivaxtahækkanir og hæstu seðlabankavexti í tólf ár, að það kæmi eitthvað afgerandi frá þessari ríkisstjórn, að einhvers konar aðgerðapakki væri í smíðum til að taka á þenslu og slá á verðbólguvæntingar. En svo kom þessi fjármálaáætlun sem er mikið til endurtekið efni; framreikningur á þeirri síðustu, með sömu aðgerðunum sem við vitum að hafa ekki dugað til að slá á verðbólguvæntingar.

Nú liggur það fyrir, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin ætlar varla að lyfta litla fingri til að taka á verðbólgunni sem er að bíta fólk í dag. Hún sendir boltann aftur til Seðlabankans og reiðir sig á að vextir haldist áfram í hæstu hæðum. Ég tek enga ábyrgð á því hvernig verðbólguvæntingar þróast, sagði hæstv. fjármálaráðherra áðan, ráðherrann sem ætlar að reka ríkissjóð með halla út árið 2027. En hitt er kannski verra, virðulegi forseti, að í þessari fjármálaáætlun eru heldur ekki boðaðar aðgerðir til að verja heimilin í landinu fyrir áhrifunum af hækkandi verðlagi, hækkandi leigukostnaði og harkalegum vaxtahækkunum. Ég er t.d. að tala um fólkið á leigumarkaði sem fékk loforð um einhvers konar takmörkun á hækkun leigufjárhæðar, einhvers konar leigubremsu, fyrir fjórum árum síðan; loforð sem hefur ekki verið efnt. Ég er að tala um fólkið sem glímir við einhvern hæsta leigukostnað OECD-ríkja sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, og fer hækkandi. Ég er að tala um fólk sem dreymir um að eignast húsnæði, kaupa íbúð, en lendir á vegg og á bara ekki séns; barnafjölskylduna sem lýsti því núna í Kastljósi fyrr í vikunni hvernig þau hafa verið föst á leigumarkaði í áratug og skilji ekki hvernig í dauðanum þau eiga að geta eignast þak yfir höfuðið. Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar veitir þessu fólki enga huggun og enga von. Ég er líka að tala um fólkið sem skreið í gegnum greiðslumat á Covid-tímanum og hefur jafnvel horft á greiðslubyrðina allt að tvöfaldast, fólk með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Hvar eru aðgerðirnar fyrir þetta fólk? Ekki í þessari fjármálaáætlun, það eitt er víst.

Hér á húsnæðisstuðningurinn, húsnæðisbætur og vaxtabætur, að standa í stað næstu árin og þegar ég spurði hæstv. ráðherra um þetta hér áðan þá nefnir hann bara skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar, aðgerð sem hefur sýnt sig að rennur að mestu leyti til þeirra tekjuhærri; þensluhvetjandi aðgerð.

Forseti. Eins og við ræddum líka áðan, þá eru örfáir mánuðir síðan ríkið undirritaði rammasamkomulag við sveitarfélög um stóraukna íbúðauppbyggingu á næstu árum. Þar er gert ráð fyrir 1.200 hagkvæmum íbúðum á viðráðanlegu verði á hverju einasta ári næstu fimm árin; risastórt verkefni sem kallar á samhent átak. Þar verður ríkið auðvitað að taka forystu, því að við vitum að ef við vanrækjum íbúðauppbyggingu og íbúðauppbyggingu á samfélagslegum forsendum í dag, þá mun það bíta í skottið á okkur á morgun.

Hvernig rímar þessi fjármálaáætlun við rammasamkomulagið sem var undirritað með pompi og prakt? Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að fjárveitingarnar sem eru boðaðar hérna í þessari fimm ára áætlun, duga í besta falli fyrir svona 400 íbúðum í almenna íbúðakerfinu, ekki 1.200 íbúðum. Þetta eru mjög skaðleg skilaboð sem ríkið sendir hér sveitarfélögum, uppbyggingaraðilum, aðilum á vinnumarkaði og fólkinu í landinu. Blekið er varla þornað af rammasamkomulaginu og ríkisstjórnin virðist bara strax búin að gefast upp. Var þetta bara enn eitt Framsóknarblöffið í húsnæðismálum, enn eitt dæmið um að blásið sé í herlúðra sem reynist svo engin innstæða fyrir?

Það aðhald sem er ráðist í í þessari áætlun, lendir að miklu leyti á almannaþjónustunni, grunnkerfunum okkar. Ég fór inn á vísi.is í gær og sá þar flennistóra mynd af hæstv. ráðherra Ásmundi Einari Daðasyni, undir yfirskriftinni: „Líta verði á börn sem fjárfestingu en ekki kostnað.“ En þetta fjárfestingarátak er hvergi að finna í þessari fjármálaáætlun. Tökum bara farsældarlögin sem dæmi. Þar er verið að setja peninga í innleiðinguna, skipulagsvinnuna, að móta einhverja umgjörð o.s.frv., en sjálf grunnþjónustan, meðferðirnar, úrræðin og geðheilbrigðisþjónustan sem börnin þurfa á að halda — allt þetta er áfram vanfjármagnað og undirmannað, og biðlistarnir halda þá bara auðvitað áfram að lengjast og lengjast, það segir sig sjálft.

Þetta er kannski það versta við þessa áætlun. Það vantar allan metnað og skýra framtíðarsýn í heilbrigðis- og velferðarmálum. Ríkisstjórnin skilar auðu þegar kemur að því að laða fólk til starfa í heilbrigðiskerfinu, hún skilar auðu þegar kemur að því að stytta biðlista barna og fullorðinna eftir nauðsynlegri þjónustu, skilar auðu þegar kemur að því að létta á útskriftarvandanum í spítalaþjónustu og skilar auðu þegar kemur að því að styrkja rekstrargrundvöll heilbrigðisstofnana úti um allt land. Hún boðar óbreytt ástand í heilbrigðismálum. Þetta er áætlun sem þýðir að við munum áfram fá að heyra fréttir af því á nokkurra vikna eða mánaða fresti næstu árin; fréttir af sprungum spítala, af ómanneskjulegu álagi, af tugum eldra fólks sem dúsa á göngunum vegna skorts á hjúkrunarrýmum. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur virðist nefnilega halda að fjárfestingin og uppbyggingin á spítalareitnum leysi okkur með einhverjum hætti undan því verkefni að tryggja viðunandi rekstur og mönnun heilbrigðisþjónustunnar frá degi til dags.

Hvað þarf margt heilbrigðisstarfsfólk að hrökklast frá störfum, virðulegi forseti, til þess að ríkisstjórnin kveiki á því að það kostar peninga að bæta starfsaðstæður og gera það eftirsóknarvert að starfa við heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Hvað þarf að ganga á? Hversu mörg og hversu hávær neyðarköll innan úr heilbrigðiskerfinu þurfa að berast til að ríkisstjórnin skilji að það getur ekki gengið til lengdar að Íslendingar verji miklu lægra hlutfalli vergrar landsframleiðslu til heilbrigðismála heldur en nágrannaþjóðirnar? Ríkisstjórnin hlustar ekki og vill ekki hlusta.

En það skiptir máli að hlusta og við jafnaðarmenn leggjum okkur fram um það þessa dagana. Við eigum í virku samtali við fólkið sem starfar í heilbrigðiskerfinu og við höldum opna fundi um allt land þessa dagana með almenningi um heilbrigðismálin. Þetta eru gefandi og gagnlegir fundir. Þar heyrum við hvað það er sem brennur á fólki. Þaðan koma líka lausnirnar, virðulegi forseti, úr nærsamfélaginu og frá þeim sem veita þjónustuna og vita hvað þarf til að bæta hana.

Virðulegi forseti. Stóra verkefnið núna er auðvitað, sérstaklega á þessu ári og því næsta, annars vegar að berja niður sjálfa verðbólguna og hins vegar að dreifa högginu, tryggja að áhrifin lendi ekki af fullum þunga á lágtekju- og millitekjufólki. Staðreyndin er sú að verðbólgan er og hefur verið alveg ævintýralega mikil á Íslandi ef við tökum með í reikninginn hvers konar sérstöðu við njótum í orkumálum, að við erum ekki að glíma við þá hækkun húshitunarkostnaðar og orkuverðs sem er að sliga heimili í öðrum Evrópuríkjum. Samt er verðbólgan hérna 10%. Verðbólgan á sér auðvitað ýmsar orsakir. Hæstv. fjármálaráðherra vísaði til vinnumarkaðarins og ég get alveg tekið undir að það væri ósanngjarnt að skella allri skuldinni á hæstv. ráðherra og ríkisstjórnina, en auðvitað hefur það samt sitt að segja að ríkisstjórnin hefur sofið á verðinum. Hún var allt of sein að taka í handbremsuna þegar hagkerfið fór að taka við sér eftir Covid og það er eins og hún hafi bara treyst svolítið á það, þegar verðbólgan fór að bíta fast fyrir um ári síðan, að hún myndi svo bara fara niður af sjálfu sér.

Við Samfylkingunni vöruðum við þessari nálgun og höfum kallað eftir auknu aðhaldi, sanngjörnu aðhaldi í anda jafnaðarmennsku og við munum halda áfram að tala fyrir ábyrgri ríkisfjármálastefnu í þágu fólksins í landinu. Við vinnum nefnilega gegn þenslu og bætum afkomu ríkisins með sanngjörnum sköttum á hæstu tekjurnar, á fjármagnið, á hvalrekagróðann og auðlindarentuna. Þannig sköpum við svigrúm í hagkerfinu til að styðja við heimili sem þurfa á stuðningi að halda, þannig stjórnun við í velferðarþjóðfélagi, þannig verjum við og styrkjum samfélagsgerðina okkar og þannig sköpum við samstöðu í samfélaginu.