Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[16:32]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þarna kom fram að það er verið að skoða þessa leigubremsu, þak eða eitthvað slíkt. En svo segir í fjármálaáætluninni um framboð á húsnæði, með leyfi forseta:

„Ónægt framboð byggingarhæfra lóða hefur staðið húsnæðisuppbyggingu fyrir þrifum en með rammasamningi ríkis og sveitarfélaga hefur verið lagður grundvöllur að sameiginlegri sýn og stefnu ríkis og sveitarfélaga í húsnæðismálum […] Markmið rammasamnings kveða á um að byggðar verði 35.000 nýjar íbúðir á tíu árum en á fyrstu fimm árunum verði þó byggðar 4.000 íbúðir á ári og 3.000 íbúðir næstu fimm árin þar á eftir. Vegna núverandi efnahagsástands, blikna á lofti varðandi starfsemi verktaka og skorts á byggingarhæfum lóðum eru vísbendingar um að hægjast muni á uppbyggingarhraða 2024 og 2025 miðað við fyrri áform.“

Ætlar hæstv. ráðherra að taka þessum vísbendingum bara liggjandi eða á að gera eitthvað til að tryggja nægt framboð á húsnæði á viðráðanlegu verði? Þá stendur í sama kafla, með leyfi forseta:

„Er það mat hagdeildar HMS að byggja þurfi 3.000−4.000 íbúðir árlega næstu fimm til tíu árin til að mæta uppsafnaðri íbúðaþörf og spá um fólksfjölgun í landinu. Er þar ekki tekið tillit til vaxandi straums flóttafólks til landsins m.a. vegna stríðsátaka í Úkraínu. Samkvæmt upplýsingum frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu er áætlaður fjöldi þeirra sem munu þurfa varanlegt húsnæði eftir að hafa fengið samþykkta umsókn um alþjóðlega vernd árið 2023 í kringum 4.000 manns en óljóst er hver þróunin verður í framhaldinu.“

Er ekki einmitt ljóst að það þarf að byggja fleiri en 4.000 íbúðir á ári? Hvernig áætlanagerð er það að leggja upp með vanmat núna strax í byrjun fimm ára fjármálaáætlunar? Í lokin þessi punktur: Er það furða þó að leiguverð sé að verða kolbrjálað hérna á markaði þegar ríkið er sjálft komið í blússandi samkeppni um hverja einustu íbúð og hér er verið að segja fólki upp leigunni sinni til að endurleigja til sveitarfélaganna og jafnvel ríkisins?