Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:11]
Horfa

innviðaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ef ég skildi viðbótarspurninguna rétt þá held ég að því hraðar sem þessi aðhaldsaðgerð virkar og við sláum hraðar niður verðbólguna því fyrr getum við snúið til fyrra horfs sem hraðast. Hvort það verður strax í fjárlögum 2024 eða 2025 ætla ég ekkert að segja um af því að það fer auðvitað eftir árangrinum af þessari aðgerð.

Varðandi hinar tvær spurningarnar, annars vegar um stöðu samvinnuverkefnanna og fjármögnun þeirra, þá hefur ekkert skort á tilboð í framkvæmdir og það mun jafnvel ekki skorta á tilboð í framkvæmdafjármögnun. Það sem er aðalvandamálið og hefur verið vandamálið er langtímafjármögnunin til 20–25 ára, að hluta til vegna þess að við erum ekki búin að klára umræðuna um hvernig endurgreiðslan verður með gjaldtökunni til baka. Það sama gildir svolítið um ökutækin og þau gjöld sem þar eru. Þar erum við í dag í innviðaráðuneytinu með verkefnastofu með fjármálaráðuneytinu þar sem eru að vinna sérfræðingar nótt sem nýtan dag að því að reyna að leysa úr öllum þessum vanda, þ.e. hvernig við förum úr því að vera með bensín- og dísilgjöld fyrst og fremst, kolefnisgjald ofan á það, yfir í eitthvert annað gjald þar sem allir greiða fyrir notkunina, í tengslum við samvinnuverkefni eða jarðgangaáætlun eða Sundabraut eða höfuðborgarsáttmálann. Þetta eru allt verkefni sem við erum búin að byggja í kringum samgönguáætlun til að reyna að viðhalda framkvæmdastiginu og halda því nægilega háu, flýta framkvæmdum og síðan ætlum við að greiða fyrir þær í framtíðinni. Ná fram ávinningnum af framkvæmdunum en greiða fyrir eftir á. Það sama gildir þá um gjöldin sem eru á ökutækjunum í dag. Hver verður nákvæmlega niðurstaðan? Ég myndi halda, ég ætla ekki að fullyrða það, að bensín- og dísilgjöld hverfi enda munu bæði bensín og dísill hverfa sem orkugjafar innan ekki svo margra ára þannig að ég held að þeir hverfi úr gjaldtökunni alveg en nákvæmlega hvernig þessi blanda verður þori ég ekki að fullyrða. Við erum með sérfræðinga í vinnu við það.