Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[17:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Með aðstöðuna að gera þá er þetta nefnilega dálítið áhugavert. Tækniskólinn segir okkur einfaldlega að það komi bara frá ráðuneytinu: Þið getið tekið inn svona marga þetta árið — þetta er bara tala — við höfum fjármögnun fyrir þetta marga og þið getið ekki tekið inn fleiri. Það gerir að verkum að skólinn skipuleggur sig með tilliti til þess fjölda, ræður ekki inn fleiri kennara eða reynir ekki að finna húsrými fyrir meiri fjölda. Fjölgunin þar takmarkast því einfaldlega af skipunum stjórnvalda, sem segja: Þið fáið fjármagn fyrir því að taka inn 1.100, eða hvað sem það er, nemendur í skólann þetta árið o.s.frv. Það virðist því ekki endilega vera takmörkun á því hversu margir vilja fara í starfsnámið heldur er fjármagnsskipunin frá ráðuneytinu einfaldlega: Nei, fjárveitingar eru bara svo miklar — gjörið svo vel. Þar af leiðandi fjölgar kannski starfsnemum ekki meira heldur en annars.

Varðandi hlutfall kennara í leik- og grunnskólum með leyfisbréf til kennslu þá fannst mér markmiðið þar mjög áhugavert hjá ráðuneytinu. Þar segir að 4% þeirra sem eru með leyfisbréf séu karlar og á næsta ári eigi það að vera 15%. Það á að vera 11% fjölgun á körlum með leyfisbréf í grunnskólum. Ég átta mig ekki alveg á þessu. Kannski er þetta ritvilla og á að vera 14% 2021 og fara upp í 15%, en alla vega stendur 4%. Því velti ég fyrir mér hvaða kraftaverk sé í gangi.