Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:21]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra segir, hér er margt undir og tíminn ekki mikill. Mig langar til að fara aðeins almennum orðum um þau meginmarkmið og þá framtíðarsýn sem lýst er í fjármálaáætlun um kolefnishlutlausa matvælaframleiðslu, sjálfbæra auðlindanýtingu, að vistkerfisnálgun sé höfð að leiðarljósi í öllu vísindastarfi og auðvitað einnig um kolefnisjöfnunina sem samræmist alþjóðlegum skuldbindingum. Þetta eru að mínu viti góð leiðarljós og markmið. Hljómar vel, en kannski hægara um að tala en í að komast og um það snýst okkar starf hér. Mig langar til að beina sjónum að lagareldinu og þeim áhættuþáttum sem talað er um í fjármálaáætlun og tengjast hröðum vexti greinarinnar eins og komið hefur fram. Þessi hraði vöxtur getur sem sagt leitt af sér óafturkræf umhverfisleg áhrif eins og við vitum. Við höfum áður rætt hér á þessum þingfundi um framtíð sjókvíaeldis og lagareldis í landinu.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er tiltölulega einföld. Hún varðar fjármögnun þeirra verkefna sem þarf að vinna. Hér er rætt um stóreflingu rannsókna, bæði á sviði eldis og hafrannsókna, en hafi ég skilið texta fjármálaáætlunar rétt er áfram gert ráð fyrir því að sækja þurfi styrki í samkeppnissjóði, t.d. fiskeldissjóð — þó svo að rætt sé um að auka eigi framlög í hann. Ég myndi gjarnan vilja heyra álit hæstv. ráðherra á því að áfram verði farið á þeirri braut að sækja þurfi í samkeppnissjóð til lögbundinna verkefna, hvað þá að sveitarfélögin séu að bítast þar um þessar upphæðir.