Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Mig minnir að Ísland sé í 67. sæti, eitthvað svoleiðis, þegar kemur að netöryggi þannig að ég hlýt að hvetja ráðherra til að fylgjast með ráðherrum sínum og tryggja að þjóðaröryggisstefnan verði ekki bara samþykkt plagg heldur sé virkt.

En það væri líka svolítið freistandi núna að eiga samtal við hæstv. ráðherra um framlög til þróunarsamvinnu. Það er stefnt að því að þau verði áfram 0,35% af vergum þjóðartekjum út tímabilið. Í fyrsta lagi er þetta aðeins helmingur af því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa lagt til og við tekið undir. Í öðru lagi liggjum við langt undir hinum norrænu þjóðunum, þetta er þriðjungur af því sem Svíar og Norðmenn verja í þetta til dæmis. Kannski finnst einhverjum að við séum að gera vel og eigum fyrst og fremst að hugsa um aðstæður hér heima. Ég veit þó að ráðherra er ekki þeirrar skoðunar og ég held jafnframt að hún deili þeirri skoðun minni að eina leiðin andspænis svona gríðarlega stórum og flóknum áskorunum í heiminum sé að stefna að því að aðstoða allar þjóðir upp úr fátækt og örbirgð. Því miður höfum við séð að í kjölfar Covid hefur orðið bakslag eftir 10 til 20 góð ár þar sem við nálguðumst markmiðið. Ég vil því spyrja ráðherra hvort við séum föst í þessum 0,35% um aldur og eilífð eða hvort hún telji að við getum sýnt meiri metnað og hvenær hún telji tímabært að íhuga næstu skref í átt að markmiðum Sameinuðu þjóðanna sem við höfum tekið undir.