Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í því að við þurfum að gera vel þegar kemur að þróunarsamvinnu. Við erum að halda í 0,35% og vegna þess að við erum í góðri stöðu hér heima þá þýðir það að framlögin hækka í krónum talið, eins og ég nefndi, miðað við spár, úr rúmlega 13,3 milljörðum árið 2024 í rúmlega 17 milljarða árið 2028. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við eigum að setja markið hærra. Núna erum við að endurskoða vinnu við mótun nýrrar stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands fyrir tímabilið 2024–2028 og það er þá eðlilegt að endurskoða það markmið sem við settum okkur fyrir ekkert svo löngu. Ef við lítum til baka þá hafa framlögin aukist mjög mikið á skömmum tíma. En ég er þeirrar skoðunar að við eigum að setja markið hærra. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að máta okkur við löndin í kringum okkur og eigum að gera betur. Það er í mínum huga einfaldlega það sem er rétt að gera. Það er það sem er sanngjarnt að gera. Það er það sem er í mínum huga hlutverk okkar sem eins ríkasta lands í heimi, að skila okkar og sinna okkar. Líka vegna þess að ef þú raunverulega trúir því að það skipti einhverju máli hvað Ísland gerir, þótt hlutirnir standi ekki endilega og falli með því, þá á það við í þróunarsamvinnu eins og öðru, þegar þú tekur pólitíska afstöðu eða styður við Úkraínu eða hvað annað sem þú ert að gera. Það er nú líka þannig að ef okkur er umhugað um frið og stöðugleika og að við getum einhvern veginn tekið skref í rétta átt — við erum því miður á allt of mörgum sviðum að taka skref í ranga átt og þar á meðal hvað varðar sárafátækt og hungur og annað slíkt — þá eigum við að líta svo á að við höfum skyldum að gegna og við eigum að sinna því með sóma og vera stolt af því að geta gert það.