Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég lít ekki svo á að með því að benda á þann þátt sem ég held að öllum sé ljóst að sé efnahagslegur óvissuþáttur í íslensku samfélagi, sem er vinnumarkaðslíkanið og vinnumarkaðurinn og hvernig við komumst að niðurstöðu um kjarasamninga hverju sinni, beri ég ekki ábyrgð eða að ég sé að koma mér eða mínum flokki eða ríkisstjórninni undan ábyrgð vegna þess að vinnumarkaðurinn ber ábyrgð, ríkisstjórnin ber ábyrgð, þ.e. stjórnvöld, bæði ríkisvaldið og sveitarstjórnarstigið, og Seðlabankinn ber ábyrgð líka. Hv. þingmaður spyr hér sérstaklega hvort vinnumarkaðurinn sé eins og hann er vegna íslensku krónunnar og þeirra sveiflna sem hér er að finna og sé viðbragð við því vegna þess að slíkar sveiflur þekkist ekki í löndunum sem við berum okkur saman við. En þá vil ég bara nefna það að þessar sveiflur þekkjast kannski ekki þar vegna þess að þar er sveiflan í atvinnuleysi. Þú kemst aldrei undan því að hagkerfið finnur sínar leiðir til að mæla hitastig og svo eru sveiflurnar teknar út einhvers staðar og í löndunum í kringum okkur, þegar þarf að ná einhverju jafnvægi þá birtist það alla jafna í gríðarlega miklu atvinnuleysi sem er eitthvað sem við þekkjum ekki hér í sama mæli, sveiflurnar birtast ekki þar. Það má spyrja hvort við sem samfélag værum tilbúin að taka við þeim og hvaða áhrif það hefði og hvaða afleiðingar það hefði. Ég gengst við því að ríkisútgjöld hafi aukist gríðarlega en ég heyri ekki annað en að það sé kallað eftir frekari fjármunum í flest þau kerfi sem draga til sín langmesta fjármagnið. Þrátt fyrir að við höfum aukið ríkisútgjöld (Forseti hringir.) þá horfi ég á þessi ár aftur í tímann og sé, eins og ég segi, tímabil stöðugleika og (Forseti hringir.) margra mjög góðra ákvarðana sem hafa skipt gríðarlegu máli fyrir íslenskt samfélag.