Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það er auðvitað af mörgu að taka ef spurt er um, bara heilt yfir, hvar sé hægt að fara betur með fé og ég gengst alveg við því að ég ber ábyrgð á mínum málaflokkum og aðrir bera ábyrgð á sínum málaflokkum. Ég er þeirrar skoðunar að í stóru kerfunum, sem taka til sín langmesta fjármagnið, þar séu tækifæri til að fara betur með fé. Ég held að til að mynda með því að nýta einkaaðila í heilbrigðiskerfinu miklu meira og miklu betur sé hægt að fara betur með fé. Ég held að með því að stórauka tækninotkun og ákveðna nýsköpun og fjárfesta í slíkri getu utan frá og setja inn í kerfin getum við sparað fé. Ég held að með því að sameina stofnanir, með því að sameina ákveðna þjónustu sem hið opinbera er að veita á mjög mörgum stöðum sé hægt að fara töluvert betur með fé.

En ég verð að nota þessa síðustu 45 sekúndur til að minna hv. þingmann á að í þau skipti sem, og ég ætla ekki að halda því fram að þau hafi verið byltingarkennd, en í þau skipti sem ég hef hér undanfarin ár komið með tillögur sem hafa falið í sér einföldun á regluverki, hætta að senda menn sem selja notaða bíla á námskeið eða leggja niður opinbera stofnun, sem ég man ekki til að aðrir ráðherrar hafi gert, þá hafa hvorki hv. þingmaður né hans flokkur verið sérstaklega miklir stuðningsmenn í þeim aðgerðum vegna þess að þegar einhver hringir og einhver er á móti og einhver bendir á að það sé óþægilegt þá er miklu auðveldara að gera það ekki. Ég er þeirrar skoðunar að því miður, meira að segja fyrir hægri mann í pólitík eins og mig, þá myndi ég þiggja mjög gjarnan frekara aðhald í því að það væri meiri pólitík í því hvernig við förum með annarra manna fé. (Forseti hringir.) Ég hins vegar veit vel að það er mín ábyrgð að sjá til þess og þess vegna (Forseti hringir.) hef ég gert það sem ég hef getað í mínum verkefnum. Ég held að það sé hægt að gera meira. (Forseti hringir.) Við erum þó í stjórnarsamstarfi þar sem hvorki ég ræð meira en ég ræð né minn flokkur sömuleiðis.