Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:19]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að hún sýni ágætlega hversu víðfeðmir málaflokkar heyra undir þetta litla ráðuneyti. Það sem um er að ræða hér, eins og hv. þingmaður þekkir mjög vel og spyr um, eru hlutir sem við höfum gert mjög mikið í, þ.e. búið er að friðlýsa mjög mikið af svæðum á undanförnum árum. Það sem hins vegar hefur svolítið vantað er að það fylgi með stjórnar- og verndaráætlanir við þessi svæði. Það er bara lítill hluti af þeim sem er búið að klára þar þannig að það sem við erum að vinna að núna er bæði áætlanir um það hvernig við getum klárað þessa stjórnunar- og verndaráætlanir, af því að hv. þingmaður spyr um fjármagn þá þarf að forgangsraða í því, og sömuleiðis hvaða ný svæði þurfi að taka inn. Forgangsröðun í mínum huga er mjög skýr; við eigum að leggja mesta áherslu á að klára þau svæði þar sem við höfum áhyggjur, sérstaklega af líffræðilegri fjölbreytni. Það er auðvitað af mjög mörgu að taka. Ég er mjög upptekinn af líffræðilegri fjölbreytni. Við ræðum mjög mikið loftslagsmálin, eðlilega. Þar er t.d. dæmi að ef við göngum fram án þess að huga að líffræðilegri fjölbreytni þá gætum við til að mynda skaðað mjög búsvæði fugla, þar með talið fugla sem við berum ábyrgð á. Ég held ég fari rétt með það, virðulegi forseti, að hátt í 70% spóa í Evrópu er á Íslandi. Þannig að mér finnst skipta máli í þessu eins og öllu að við séum með skýra forgangsröðun, vegna þess að við erum alltaf með takmarkaða fjármuni og forgangsröðunin er þarna, bæði svæðin sem við erum núna búin að friðlýsa, eftir að klára stjórnunar- og verndaráætlanir, og sömuleiðis það sem er á undan, líffræðilegri fjölbreytni sem er númer eitt í forgangsröðuninni.