Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[21:21]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og það gleður mig að heyra að hann leggur ríka áherslu á mikilvægi verndar líffræðilegs fjölbreytileika. Það er sannarlega málefni og málaflokkur sem hefur alls ekki fengið það vægi sem hann á skilið og þar erum við líka í kappi við tímann eins og hefur komið fram í umræðu um loftslagsmálin, enda nátengt verkefni. Engu að síður vænti ég þess að framkvæmdaáætlun Náttúruminjaskrár líti dagsins ljós fyrr en síðar og það verður gaman að sjá áherslu á friðlýst svæði eða svæði sem eru sérstaklega mikilvæg í samhengi líffræðilegs fjölbreytileika.

Annað bráðabirgðaákvæði náttúruverndarlaga kveður á um fyrstu kortlagningu óbyggðra víðerna alls landsins og að henni skuli vera lokið fyrir 1. júní nk. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessari vinnu miði. Þá vil ég að endingu segja að landvarsla er ein mikilvægasta forsenda þess að tryggja vernd svæða og á síðasta kjörtímabili var fjármagn til reksturs friðlýstra svæða, bæði með heilsárslandvörslu og auknum fjölda tímabundið ráðinna landvarða, aukið töluvert enda hefur gífurleg aukning í fjölda ferðamanna kallað eftir þessari nauðsynlegu viðbót í reksturinn auk fjármagns til framkvæmda til varnar viðkvæmri náttúru á friðlýstum svæðum. Í kaflanum um málaflokk 17.10 eru tiltekin tækifæri til umbóta og þar er sérstaklega nefnt að hægt væri að ná fram aukinni samlegð í verkefnum stofnana sem fara með umsjón á náttúruverndarsvæðum og öðrum svæðum sem njóta verndar.

Þessu er ég sammála, virðulegi forseti, en mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji tækifæri felast í því að gerð verði markviss áætlun um eflingu landvörslu. Í henni væri hægt að leggja sérstaka áherslu á fjölgun starfa og heilsársstöðugilda í landvörslu með auknu fjármagni og við þessa áætlunargerð væri hægt að skoða hvort þörf sé á endurskipulagningu verkefna í landvörslu til þess m.a. að mæta þeim tækifærum í umbótum sem nefndar eru í fjármálaáætlun.