Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 94. fundur,  17. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[22:12]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að fara yfir málefni fjármálakerfisins. Fyrst ber að nefna að eftir þrjár vikur mun ég fá í hendur skýrslu sem við höfum verið að vinna að síðustu 18 mánuði sem hefur það að markmiði að skoða hver þróun kostnaðar hefur verið fyrir neytendur í bankakerfinu, sérstaklega í ljósi þess að við höfum séð að mikil hagræðing hefur átt sér stað. Við höfum séð að mikil fækkun hefur orðið á bankastarfsmönnum í fjármálakerfinu á síðustu fimm til sjö árum, m.a. vegna þess að búið er að auka alla þjónustu í gegnum sjálfvirknivæðingu og annað slíkt. Ég tel því rétt að skoða hvernig þessi þróun hefur verið. Það verður mjög fróðlegt að sjá niðurstöðurnar úr þeirri skýrslu.

Hv. þingmaður spyr hvort ekki hefði verið eðlilegt að hækka bankaskattinn og hvort ríkissjóð munaði ekki um 10 milljarða. Að sjálfsögðu munar ríkissjóð um 10 milljarða en eins og hv. þingmaður hefur líklega tekið eftir þá var skattur á lögaðila hækkaður í þessari ríkisfjármálaáætlun, m.a. til að bregðast við aukinni þenslu, og við höfum verið að minnka skattaívilnanir til þess að ná utan um verðbólguna. Ef við lítum á landsframleiðsluna þá er það svo að einkaneysla hefur verið mjög mikil og Seðlabankinn hefur verið að hækka stýrivexti verulega og það er afar brýnt að ríkisfjármálin og peningastefnan rói í sömu átt. Við sáum að markaðsaðilar tóku mjög vel í ríkisfjármálaáætlunina þar sem ávöxtunarkrafan á ríkisskuldabréf lækkaði mjög skarpt dagana eftir að ríkisfjármálaáætlun var kynnt.