Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Á liðnum árum og áratugum hafa fyrirtæki í eigu Reykjavíkurborgar verið í fremstu röð í að byggja upp fjarskiptainnviði og þá sérstaklega ljósleiðarakerfi til hagsbóta fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrannasveitarfélaga sem og fyrirtækja á svæðinu. Þetta hefur skilað sér í háu tæknistigi og hagstæðu verði á fjarskiptaþjónustu. Hægri öflin á Íslandi hafa lengi verið á móti þessum samfélagslega rekstri og margoft flutt tillögur um að koma honum í hendur einkaaðila en félagshyggjuflokkarnir í borginni hafa til þessa staðið á móti öllum slíkum hugmyndum.

Mig langar því að eiga orðastað við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson, þingmann Reykjavíkur, um það hvernig hann sem jafnaðarmaður metur þann umsnúning flokksfélaga hans í Samfylkingunni og annarra meirihlutaflokka í borginni þess efnis að þynna út eignarhluta opinberra aðila með því að fara í hlutafjárútboð þar sem um þriðjungur fyrirtækisins Ljósleiðarans verður seldur einkaaðilum. Er þingmaðurinn sammála fulltrúum Vinstri grænna og Sósíalistaflokksins í meiri hlutanum í borginni sem benda á að rétt sé að líta á rekstur ljósleiðarakerfisins sem mikilvægt samfélagslegt innviðaverkefni á pari við rekstur hitaveitu?

Nú varð ýmsum samflokksmönnum hv. þingmanns tíðrætt um það í tengslum við sölu Símans á Mílu til erlendra fjárfesta hvort ríkisvaldið ætlaði ekki að grípa inn í með einhverjum hætti og stöðva söluna. Þar var þó um að ræða viðskipti milli tveggja einkaaðila á innviðum sem þegar var illu heilli búið að einkavæða. Vekur það þingmanninum ekki áhyggjur þegar borgarstjórn Reykjavíkur hyggst með þessum hætti taka risaskref í þá átt að færa mikilvæga samfélagslega innviði úr félagslegri eigu og til einkaaðila? Hefur þingmaðurinn hugsað sér að reyna að koma vitinu fyrir sitt fólk í borginni?