Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Með leyfi forseta:

„Það kom mér á óvart í desember þegar Icelandair tilkynnti að flugfélagið ætli að hefja beint áætlunarflug frá Keflavík til Tel Aviv. Það hentar eflaust vel fyrir þá fáu Íslendinga sem búsettir eru í Ísrael og einnig þá sem vilja heimsækja landið. Einnig hentar það ágætlega Íslendingum sem vilja heimsækja Palestínu. En þessu fylgja djúp og alvarleg vandamál sem Icelandair vill ekki ræða.“

Þannig skrifar Yousef Ingi Tamimi á fréttavefnum Heimildinni þann 12. apríl sl. En í frétt á Vísi rétt fyrir jól var vitnað í framkvæmdastjóra leiðakerfis Icelandair, Tómas Ingason, sem virtist spenntur fyrir Tel Aviv sem nýjum áfangastað og taldi þar upp hluti sem áfangastaðurinn hefur upp á að bjóða; strendur og annað næs. Með leyfi forseta:

„Tómas minnist á að stutt sé til Jórdaníu en passar sig sérstaklega að minnast hvergi á Palestínu — en eins og flestum er kunnugt þá er stór hluti Dauðahafsins (ólöglega hernumið) í Palestínu, Betlehem er palestínsk borg og svo er Austur-Jerúsalem, sem hefur verið ólöglega innlimuð inn í Ísrael, palestínsk.“ — Allt eru þetta staðir sem nefndir eru sem frábærir áfangastaðir í Tel Aviv. — „Icelandair auglýsti svo á heimasíðu sinni Jaffa sem elsta hluta Tel Aviv, en þar kemur hvorki fram að borgin sé palestínsk né er minnst á þær hörmungar sem áttu þar stað árið 1948 þegar Palestínufólkið var annaðhvort myrt eða hrakið á flótta í þjóðernishreinsunum sem enn eiga sér stað í dag.

Tómas Ingason, Bogi Nils Bogason og fleiri stjórnendur Icelandair eru fullkomlega meðvituð um þau mannréttindabrot, hernám og þjóðernishreinsanir sem stundaðar eru í Ísrael en kjósa viljandi að hunsa þau. Þau kjósa að taka ekki afstöðu gegn ólöglegu hernámi Ísraels í Jerúsalem og Palestínu og með því samþykkja þau að aðgerðir Ísraela séu réttlætanlegar.“

Eða eins og Desmond Tutu sagði: Ef þú ert hlutlaus gagnvart óréttlæti hefurðu kosið að standa með kúgaranum.

Forseti. Ég hvet öll til að lesa tilvitnaða grein í Heimildinni frá 12. apríl sl. og taka afstöðu í þessu máli.