Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Í morgun var fundur Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála um stjórnsýsluúttektir Ríkisendurskoðunar, mjög áhugaverður fundur þar sem sviðsstjóri stjórnsýslu- og lögfræðisviðs Ríkisendurskoðunar kynnti hvernig þær stjórnsýsluendurskoðanir færu fram. Þar komu Sigríður Kristinsdóttir, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, og Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, sem nýlegir aðilar sem hafa verið teknir til skoðunar í stjórnsýsluúttekt. Það var dálítið áhugavert sem þar kom fram, sérstaklega með tilliti til þess að ég sit í fjárlaganefnd, en ábendingar sem fram komu í stjórnsýsluúttektum Ríkisendurskoðunar voru þær að verkefni þessara aðila væru vanfjármögnuð. Þrátt fyrir önnur verkefni þessara aðila þá væru, samkvæmt niðurstöðum Ríkisendurskoðunar, Samkeppniseftirlitið og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu vanfjármögnuð til að sinna lögbundnum verkefnum. Þau ítrekuðu bæði hvað þeim fyndist halla á sig í rauninni, að ráðuneytin væru ekki að bregðast við þessum ábendingum á neinn hátt. Páll Gunnar Pálsson bætti um betur og sagði að núverandi fyrirkomulag opinberra fjármála, með lögum um opinber fjármál, væri í rauninni verra heldur en gamla fyrirkomulagið þar sem hann hefði hvergi stað til að leita til varðandi einmitt svona ábendingar — engan til að leita til.

Mig langar hins vegar til að benda á að það er dálítið ónákvæmt. Það er hægt að leita til þingsins. Það er hægt að senda inn umsögn til fjárlaganefndar um fjármálaáætlanirnar sem eru í gangi núna. Þetta er það sem hefur vantað upp á að undanförnu, að við í fjárlaganefnd fáum ekki að vita hverjar eru forsendur þess að ein eða önnur upphæð er lögð til (Forseti hringir.) hinna og þessara málefnasviða en ekki hærri eða lægri upphæð. Við getum ekki skoðað: Mun þetta duga til að verkefni sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu (Forseti hringir.) og Samkeppnisstofnunar verði fjármögnuð eða ekki? Við höfum ekki þær upplýsingar af því að það virðist vera að ráðuneytin banni þeim einfaldlega að senda þær upplýsingar til okkar.