Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

Störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Ástrós Rut Sigurðardóttir (V):

Virðulegur forseti. Það er heiður að fá að standa hér og flytja mína fyrstu ræðu í einu glæsilegasta og virðulegasta húsið landsins. Að fá tækifæri til að breyta til hins betra og vera partur af jákvæðri þróun samfélagsins hefur verið ástríða mín lengi. Aðeins 24 ára gömul stóð ég við hlið mannsins míns þar sem við fengum þær skelfilegu fréttir að krabbamein væri ástæðan fyrir verkjum hans og veikindum. Við fengum einnig að heyra að þetta yrði mjög langt og erfitt ferli. Í dag eru tíu ár liðin og ég tíu árum eldri og vitrari en maðurinn minn er ekki lengur með okkur. Hann lést árið 2019 frá kornungri dóttur sinni og stóðu mæðgur eftir í sárum. Á þessum sjö árum sem maðurinn minn, Bjarki, glímdi við þann skæða sjúkdóms sem krabbamein er lærði ég margt. Ég lærði að það er flókið að vita um réttindi sín. Ég lærði að vegurinn í gegnum kerfið er þungbær og ég lærði að það þarf sterkan einstakling á bak við veikan einstakling til að komast í gegnum frumskóg kerfisins og það er ekki sjálfgefið.

Ég varð fyrir löngu sannfærð um mikilvægi þess að koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga sem yrði nauðsynlegt afl fyrir sjúklinga til að fá á einum stað upplýsingar um réttindi sín, fræðslu og leiðsögn um kerfið. Umboðsmaður sjúklinga myndi einnig sinna því hlutverki að standa vörð um hagsmuni þessa viðkvæma hóps og gæta að því að sjúklingar fái sem besta heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Þetta er ekki bara fallegt fyrirkomulag, þetta er faglegt.

Ég fagna því að þingsályktunartillaga hv. þm. Halldóru Mogensen um þetta mál sé komið til umfjöllunar í velferðarnefnd og hvet hv. þingmenn nefndarinnar til að láta það ekki stoppa þetta góða mál þó að það komi frá stjórnarandstöðuþingmanni. Gott er gott, sama hvaðan það kemur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Kerfið var nefnilega flókið og erfitt yfirferðar þegar ég þurfti að eiga við það sjálf og hefur því miður allt of lítið breyst síðan. Þess vegna vil ég eindregið vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég er sannfærð um að umboðsmaður sjúklinga hefði hjálpað okkur Bjarka heil ósköp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)