Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Þessi fjármálaáætlun ber merki þess að vera lögð fram á tímum þar sem meginmarkmiðið er að slá niður verðbólgu sem hefur það í för með sér að í þessari áætlun má bæði finna kröfur og áætlanir um aukna hagræðingu en einnig áætlanir um aukna tekjuöflun. Aðhaldsstig ríkissjóðs er aukið sem vinnur gegn þenslu sem birtist í því að þegar á þessu ári er gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður sem eru gríðarlega jákvæð tíðindi.

Áfram er gert ráð fyrir aðhaldi í ríkisfjármálum, bæði þegar horft er til frumjafnaðar að teknu tilliti til hagsveiflunnar en líka eftirspurnar hins opinbera í formi samneyslu og fjárfestinga. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að vöxtur samneyslu verði hægur í sögulegu samhengi. Hún lækki sem hlutfall af landsframleiðslu í átt að langtímameðaltali á áætlunartímabilinu eftir að hafa að sjálfsögðu aukist mikið í heimsfaraldri þegar ríkisfjármálunum var beitt af fullum þunga til að vinna gegn samdrætti og atvinnuleysi. Fjárfesting hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu verður í nálægð við langtímameðaltal sitt árið 2023 en lækkar örlítið eftir það gangi spáin eftir. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað umtalsvert frá árinu 2020 og 2021 þegar áhrifa faraldursins og stuðningsaðgerða honum tengdum gætti sem mest en þá nam hallinn á rekstri ríkissjóðs 7–8% af landsframleiðslu hvort árið. Afkomubatinn hefur hins vegar á síðustu tveimur árum verið mun hraðari en áætlanir gerðu ráð fyrir og nú er útlit fyrir, eins og ég nefndi hér áðan, að frumjöfnuður ríkissjóðs verði jákvæður í ár í fyrsta sinn frá árinu 2019 og sú niðurstaða tryggir að hægt verður að stöðva hækkun skuldahlutfallsins. Áætlað er að frumjöfnuður verði jákvæður um tæplega 24 milljarða kr. á árinu 2023 eða 0,6% af landsframleiðslu, en núgildandi fjármálaáætlun gerði ekki ráð fyrir að sá áfangi næðist fyrr en á næsta ári. Gangi hún eftir batnar frumjöfnuðurinn um nærri 74 milljarða kr. frá fjárlögum þessa árs. Batnandi frumafkoma dregur úr þenslu og styður við peningastefnuna og áætlað er að undir lok áætlunartímabilsins verði komið jafnvægi í heildarafkomu ríkissjóðs. Þá verði frumjöfnuður orðinn jákvæður um 1,3% af landsframleiðslu, heildarjöfnuður um 0,1% af vergri landsframleiðslu en á árinu 2024 verður fjármagnsjöfnuður áfram neikvæður og því er heildarjöfnuður neikvæður um 0,3% á árinu.

Ég tel sýnt, eins og kemur fram í áætluninni, að skuldahlutfallið muni hafa náð hámarki undir lok síðasta árs og muni fara nokkuð lækkandi á tímabili áætlunarinnar. Ég verð því að segja það í þessum inngangsorðum að ég tel að sú umræða sem byggir á þeirri forsendu að hér hafi verið gríðarlegur útgjaldavöxtur — ég tel ekki að hún standist skoðun þegar rýnt er í hlutföllin af landsframleiðslunni og þau skoðuð í sögulegum skilningi. Hins vegar er það alveg rétt að það hefur verið ráðist í það sem ég vil kalla að greiða ákveðna innviðaskuld þegar kemur að uppbyggingu, t.d. í samgöngukerfinu þar sem ráðist hefur verið í umtalsverðar fjárfestingar á undanförnum árum. Eins hefur verið ráðist mjög markvisst í það að efla hér fjárfestingar í velsæld, þ.e. að halda áfram af fullum krafti og hefja uppbyggingu á nýjum spítala sem nú rýkur upp og við sjáum öll rísa sem hér eigum ferð um höfuðborgarsvæðið sem mun breyta alveg gríðarlega miklu um starfsaðstæður og kjör þeirra sem vinna á þessari mikilvægu heilbrigðisstofnun sem er flaggskip heilbrigðiskerfisins okkar.

Það er ótrúlega stutt síðan, herra forseti, að við stóðum í þeim sporum að ríflega 49.000 manns voru hér án atvinnu að fullu eða að hluta vegna takmarkana sem þurfti að setja á samfélagið vegna heimsfaraldurs. En eins og kunnugt er þá nýttum við okkar sameiginlegu sjóði til að milda það högg. Ég fæ ekki betur séð, þegar við skoðum þessar stóru línur, að þær sýni okkur að að sjálfsögðu versnaði afkoma ríkissjóðs í faraldrinum — en ekki hvað — en um leið sjáum við að viðspyrnan hefur orðið snörp og við sjáum hraðan bata fram undan í ríkisfjármálum. Þetta finnst mér nú vera mikilvægustu tíðindin í þessari fjármálaáætlun. Við erum auðvitað á sama stað og fjölmörg nágrannaríki okkar, hvort sem er austan hafs eða vestan, þ.e. að glíma við verðbólguna sem fylgdi í kjölfar stríðsátaka í Úkraínu með hækkandi orku- og hrávöruverði og við höfum auðvitað ekki farið varhluta af þeirri alþjóðlegu þróun. En við skulum heldur ekki gera lítið úr því að ýmsir undirliggjandi þættir verðbólgunnar hér kunni að skýrast af öðrum þáttum að hluta til en hjá nágrannaríkjum okkar. Við búum hins vegar við þá góðu stöðu að hér eru umsvifin mikil þannig að verkefnið er algjörlega ljóst. Það þarf að vinna með peningamálastjórninni, það þarf að slá niður verðbólgu og skapa aðstæður þannig að unnt verði að sjá vaxtastig fara lækkandi í framhaldinu. Það skiptir hins vegar máli að það gerum við ekki á kostnað grunnþjónustunnar, almannaþjónustunnar, sem við höfum verið að byggja upp á undanförnum árum, hvort sem er í heilbrigðis-, velferðar- eða menntakerfi. (Forseti hringir.) Þessi sýn birtist með mjög skýrum hætti í þessari fjármálaáætlun.

Hvað varðar málaflokka forsætisráðuneytisins sérstaklega þá er ég að sjálfsögðu til svara um þá hér á eftir.