Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir hans sýn á fjármálaáætlun. Það þarf engum að koma á óvart að við deilum ekki nákvæmlega sömu sýn á þessa fjármálaáætlun og mér finnst rétt að nefna það hér fyrst, af því að hv. þingmaður byrjaði á að tala um tekjuöflun, að gert er ráð fyrir því að fiskeldisgjald fari að skila auknum tekjum í ríkissjóð strax frá og með árinu 2024 og það er nú tímabil sem áætlunin nær til þannig að ekki bíður það. Það er gert ráð fyrir hækkun veiðigjalda á áætlunartímabilinu sem kemur þó ekki inn strax á næsta ári, enda stendur yfir umfangsmikil endurskoðun á því kerfi og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að vel takist til í þeirri endurskoðun. En það er alveg ljóst, og það birtist í þessari fjármálaáætlun, að við teljum að útgerðin sé aflögufær um meira fé inn í okkar sameiginlegu sjóði sem ég hefði nú talið að hv. þingmaður fagnaði, enda þekki ég hans sýn á það.

Ég nefni líka aukna gjaldtöku í ferðaþjónustu sem gert er ráð fyrir að skili auknum tekjum strax á árinu 2024. Þar er verið að horfa á m.a. að taka aftur upp gistináttagjald, eins og við munum þá felldum við það niður tímabundið vegna heimsfaraldurs, en líka að horfa sérstaklega á skemmtiferðaskipin sem fjölgar sífellt og horfa til þess að þau greiði í senn einhvers konar blöndu af gistináttagjaldi og umhverfisgjaldi. Þannig að ég átta mig ekki alveg á því þó að horft sé til þess að tekjuskattur lögaðila, sem hækkar vissulega á árinu 2024 tímabundið, þær tekjur skila sér vissulega á árinu 2025 en það hefur auðvitað strax áhrif á alla áætlanagerð lögaðila. Já, það er rétt að við lækkum endurgreiðsluhlutfallið strax á árinu 2023, sem er eiginlega sértæk aðgerð utan við fjármálaáætlun, og eins gerum við ráð fyrir því að koma til móts við örorkulífeyrisþega með verðbólguvörn á miðju ári 2023 til að verja þennan hóp, sem er vissulega einn af okkar viðkvæmu hópum, fyrir áhrifum verðbólgunnar. Ég gæti svo haldið áfram og með þær framkvæmdir sem haldið er áfram með en nota kannski næsta svar í það.