Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:21]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það þarf vonandi ekki að minna hæstv. forsætisráðherra á að þær aðgerðir sem þarf að ráðast í núna eru til að taka á verðbólgunni núna. Hér talaði hæstv. ráðherra áðan um hvernig ríkisstjórnin hefði mildað höggið, eins og hún orðaði það, þegar við fórum í gegnum Covid. Þetta er auðvitað kjarninn í því sem ég er að spyrja um. Hvað hefur virkni strax og hvað er látið bíða? Það er algerlega áberandi og þýðir ekkert að rífast um það hér að þær aðgerðir sem snúa að almenningi, það högg sem almenningur er að verða fyrir til að tempra þensluna, þær taka gildi bara nú og þegar á meðan aðgerðir til að slá á þensluna gagnvart þeim sem virkilega eru aflögufærir, stórútgerðinni t.d., það er eitthvað langt inni í framtíðinni.

Þannig að ég spyr bara og endurtek spurninguna og þarf ekki að eyða af þessum tveimur mínútum sem ég hef til umráða. Ég spyr bara: Af hverju er það sem snýr að almenningi látið hafa virkni strax en það sem snýr að þeim sem eru virkilega aflögufærir látið bíða?