Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:24]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við erum hér í umræðu um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Mig langar að ræða við hæstv. forsætisráðherra um málefni sem hún fer með sem eru málefni sem varða þjóðaröryggi og Þjóðaröryggisráð en við erum nýlega búin að samþykkja þjóðaröryggisstefnu fyrir landið. Mig langar aðeins að fara inn í þá umræðu og langar þá að spyrja hvernig hæstv. ráðherra skynjar stöðu þjóðhagslega mikilvægra innviða í dag í landinu og hvernig þessi þróun hefur verið til síðustu ára. Þá er ég að tala um mikilvægi samgönguinnviða, raforku- og fjarskiptakerfis, netöryggis og fæðuöryggis og með tilliti til öryggis borgaranna og samfélagsins alls. Sá sem hér stendur hefur lengi talað fyrir því á Alþingi að hér verði samþykkt heilsteypt löggjöf varðandi öryggismál þjóðarinnar. Slík löggjöf gæti að miklu byggst á nýsamþykktri þjóðaröryggisstefnu. Í þjóðaröryggisstefnunni nýju voru gerðar nokkrar breytingar frá upprunalegu þjóðaröryggisstefnunni sem var samþykkt vorið 2016. Það er mikilvægt fyrir íslenska þjóð að greina ítarlega grunninnviði samfélagsins og þá samfélagslegu innviði sem teljast mikilvægir að teknu tilliti til þjóðaröryggishagsmuna. Þannig má tryggja öryggi þjóðarinnar og jafnframt sameiginlegan skilning á því hvað felst í þjóðaröryggishugtakinu. Það er líka mikilvægt að það sé þjóðarsátt um hvernig öryggi lands og þjóðar sé best tryggt. Það er helst tvennt sem mér finnst hafa mótað þessa umræðu hjá okkur síðustu árin en það er óveðrið í desember 2019 og síðan innrás Rússa í Úkraínu í fyrra. Ég vildi kannski koma aðeins inn á hvernig þetta hefur komið fram í fjárlögum undanfarinna ára og í þessari ríkisfjármálaáætlun, svona í fyrra hollinu.