Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:26]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir að vekja máls á innviðunum, mikilvægum innviðum. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður nefnir að óveðrið í desember 2019, þar sem í raun og veru hálft landið var án rafmagns í mjög langan tíma, skilaði sér í mjög góðri vinnu, sem ég leiddi, mjög umfangsmikilli aðgerðaáætlun um uppbyggingu innviða þar sem voru lagðar til 287 nýjar aðgerðir, flýtiaðgerðir, til að styrkja innviði. Þær kostuðu ekki endilega allar mjög mikið en snerust bæði um aukna samhæfingu aðgerða, bætta skilgreiningu á hlutverki, mönnun og samræmingu fyrirtækja og stofnana, eflingu almannavarnakerfisins, fræðslu, upplýsingagjöf og svo það sem við getum kallað áþreifanlegar aðgerðir, t.d. bara eins og hreinlega að styrkja varaafl flutningskerfisins, þar sem núna eru komnar tíu færanlegar varaaflsstöðvar, 75% af dreifikerfi Rarik er nú komið í jörð og það er áfram unnið markvisst að því að koma auknum hluta flutningskerfisins í jörð. Það er búið að fjárfesta töluvert í tækjum og búnaði og í raun má segja að tímaáætlunin hafi staðist. Það voru 79 aðgerðir, eins og ég segi, flýtiaðgerðir sem átti að ljúka innan 12 mánaða, 207 langtímaaðgerðir sem átti að ljúka á árinu 2021 og síðan hélt áætlunin áfram alveg til 2030. Í stuttu máli sagt er flest af þessu vel á veg komið. Einhverjar aðgerðir eru í bið vegna lagasetningar. Þannig að ég tel að við höfum brugðist við.

Annað mál sem þessu tengist eru ofanflóðavarnir. Núverandi ríkisstjórn ákvað að flýta uppbyggingu varnargarða vegna ofanflóða, sem svo sannarlega skiptir máli. Við erum bara reglulega minnt á þá hættu sem hér stafar af ofanflóðum. Í janúar 2023 hafði verið varið um 34,6 milljörðum á núvirði til ofanflóðavarna frá árinu 1996 en það breytir því ekki að verkið er enn þá risastórt. (Forseti hringir.) Sá kostnaður sem við eigum eftir að ráðast í nemur um 33,8 milljörðum (Forseti hringir.) til ársins 2030. Þannig að það er enn þá mikið verk óunnið í þessu.