Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:29]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Ég held að það hafi náðst mikill árangur að mörgu leyti, eins og með flutningskerfi raforku og þá kerfisáætlun sem er í gildi til næstu ára. Þar er verið að keppast við að ná að styrkja kerfið sem er síðan gríðarlega mikilvægt inn í orkuskiptin og raunverulega algert grundvallarmál ef orkuskiptin eiga að verða á Íslandi með því raforkuöryggi sem við viljum sjá, þ.e. uppbygging á flutningskerfinu, byggðalínunni og öfluga kerfinu, háspennta kerfinu. Þannig að ég tek undir það og ég held að það sé á ágætisvegferð núna. En það eru ákveðin mál sem þarf að leysa þar. Það er síðan eins og með fjarskiptastrengina frá landinu þar sem hefur náðst mikill árangur. Það eru nokkrar vikur síðan Íris var tekin í notkun þannig að nú er búið að fjölga um streng og tífalda fjarskiptaöryggi til og frá landinu með þeirri framkvæmd, sem ég held að sé gríðarlega stórt og mikilvægt mál.

En beint inn í ríkisfjármálaáætlunina, og það var reyndar kynnt í ríkisfjármálaáætluninni í fyrra líka, og varaflugvallagjaldið. Það er verið að tala um 200 kr. á hvern farþega til og frá völlunum og um vellina sem er síðan — ég get ekki annað en talað um þetta. Síðan gamla varaflugvallagjaldið var tekið af 2011 hefur fjármögnun flugvalla landsins hrunið. Það hefur verið tekinn raunverulega 1 milljarður á hverju ári út úr kerfinu miðað við það sem var fyrir það. Ég held að það sé síðan gríðarlega mikilvægt til að efla alþjóðaflugvallakerfið, sem er hluti af þjóðaröryggishagsmunum þjóðarinnar, sem aftur veitir þá tækifæri til að flytja frekara fjármagn inn á minni vellina með auknu fjármagni inn í alþjóðaflugvallakerfið. Það væri kannski ágætt að heyra frá hæstv. forsætisráðherra, fyrst maður er kominn í þessa stöðu að spyrja beint, hvort hún sé ekki stuðningsmaður þess að taka upp þetta kerfi og þessa fjármögnun sem við erum að ræða í þessu samhengi.