Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:38]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. 16,5 milljarðar, jú, það vonandi skilar sér en það skilar sér ekki nema gerðir verði mjög víðtækar breytingar á kerfinu, virkilega víðtækar. Það er annað í þessu. Við erum í skrýtnu samfélagi í dag, eins og ég var að segja í ræðu minni um störf þingsins, við erum í samfélagi þar sem er verið að senda fólk út á götuna, vegna þess að það hefur ekki efni á að borga hækkandi leigu, til að leigja annarri fjölskyldu. Það hlýtur að vera grafalvarlegt ástand. Það er engin lausn, það er bara verið að færa til fólk. Og hvert á það fólk að fara sem missir íbúðirnar sínar? Á sama tíma tölum við um að þessi ríkisstjórnin hafi hækkað almannatryggingarnar alveg rosalega mikið. Í 69. gr. almannatrygginga stendur skýrum stöfum að þær eigi að fylgja launaþróun en til þess að fylgja þessari launaþróun þá þarf að reikna launaþróunina fram í tímann. Þetta er nákvæmlega sama krafa og er gerð á eldri borgara og öryrkja, að þeir eigi að sjá verðbólguna fram í tímann. Þessi raunreikningur sem á að segja okkur hversu mikið á að hækka fram í tímann um hver áramót hefur aldrei staðist. Samt kemur það í ljós áramótin á eftir að það hefur ekki staðist en þetta bil hefur aldrei verið brúað. Þess vegna erum við með þessa kjaragliðnun ár eftir ár

Ég spyr: Ef við erum að endurskoða þetta kerfi, af hverju í ósköpunum tökum við ekki á þessu? Ég tel þetta vera bæði stjórnarskrárbrot og lögbrot. Það stendur skýrt í lögunum að það eigi að fara eftir þessu. Að fara ekki eftir því og vísvitandi og viljandi brjóta þennan grundvöll, að þessir hópar fái nákvæmlega það sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum, við verðum að breyta því. Ég vona heitt og innilega, hæstv. forsætisráðherra, að í þeim breytingum sem fram undan eru á almannatryggingalögum verði tekið á þessu.