Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:52]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjármálaáætlun 2024–2028 og málefnasviðs 3 og ánægjulegt að eiga orðastað við hæstv. forsætisráðherra um framtíðarmúsík sem tilheyrir hennar ráðuneyti. Það kemur hér fram vel fram í kafla um helstu áskoranir að forsætisráðherra hefur yfirumsjón með þjóðlendum þessa lands og tækifærum, því að það eru gríðarleg tækifæri sem felast í því mikla landi sem heyrir þar undir. Kemur fram að stefnt sé að því að nýta þjóðlendur til loftslagsmála, þ.e. að græða þjóðlendurnar upp, hvort sem við gerum það með skógi eða öðrum gróðri, og þau tækifæri sem þar eru. En ég geri mér sömuleiðis grein fyrir því að þetta eru jú áskoranir og þar af leiðandi eru þær ekki fjármagnaðar í fjármálaáætlun en vissulega mikilvægt að ræða þessa hluti því að þarna eigum við gríðarleg tækifæri, þjóðin, í baráttu okkar í loftslagsmálum. Þetta eru mikil víðerni og mikið land og sannarlega mikil auðlind og mikil verðmæti sem þarna felast og verður gaman að fá að heyra hug forsætisráðherra til þessa verkefnis og hvernig forsætisráðherra sér fyrir sér að við stöndum að þessu.