Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Ég þakka hv. þm. Þórarni Inga Péturssyni fyrir að nefna þessi miklu verðmæti sem við eigum í þjóðlendunum. Verkefnið hefur staðið í raun og veru allt frá því að þau lög voru sett hér á þingi undir lok síðustu aldar og við sjáum nú fyrir endann á því, þ.e. að á næstu árum verði lokið að úrskurða um þau málefni sem enn standa út af þegar kemur að annars vegar þjóðlendum og hins vegar landi í séreignarhaldi. Ég er algerlega sammála hv. þingmanni að það eru tækifæri í þjóðlendunum til að auka kolefnisbindingu og við höfum verið að undirbúa slíkt verkefni í forsætisráðuneytinu sem snýst um endurheimt vistkerfa. Ástæða þess að við viljum tala um endurheimt vistkerfa en ekki bara kolefnisbindingu er að aðgerðir til að draga úr losun eða binda kolefni eru svo nátengdar líffræðilegum fjölbreytileika og okkur finnst mikilvægt að þegar við horfum á þetta land, sem er í eigu þjóðarinnar, séum við að horfa til þess að reyna að endurheimta vistkerfi og þar með líffræðilegan fjölbreytileika á svæðunum og ekki bara binda kolefni, þó að það sé mjög mikilvægur hluti af verkefninu.

Það sem er líka hluti af þessu er að þetta er einmitt ekki mitt land, þetta er ekki land neins eins heldur land okkar allra og því viljum við nýta aðferðir almenningssamráðs til að taka ákvarðanir. Það sem við erum búin að gera nú þegar með sérfræðingum á þessu sviði sem þekkja vistkerfin og hvaða aðgerða er þörf er að horfa á svæðin sem koma til greina, því að þau koma ekki öll til greina, jöklarnir eru ekki að fara í mikla endurheimt vistkerfa. Það er búið að horfa á hvaða svæði koma til greina til að ráðast í þetta og áætlunin er að eiga svo samtal við heimamenn, sem auðvitað hafa nýtt þessi svæði sem afrétti þannig að þessi svæði hafa mörg hver verið í margháttaðri nýtingu, um það hvernig við sjáum fyrir okkur að við getum byggt upp þessa endurheimt. Vonandi get ég sagt hv. þm. meira um hvernig þessu samráði verði háttað á komandi vikum því að ég á einmitt fund um það í þessari viku. (Forseti hringir.) Ég held að þetta sé gríðarlega spennandi tækifæri, bæði til að ná árangri í loftslagsmálum en líka til að skapa þetta nauðsynlega eignarhald (Forseti hringir.) á þeim aðgerðum sem er ráðist í til að ná þeim árangri.