Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:59]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er litlu við þetta að bæta. Ég ætla ekki að hætta mér út á þann hála ís að fara að ræða þjóðernisuppruna gróðurs sem ég og hv. þingmaður vitum að getur verið mikið sprengjusvæði. Einmitt þess vegna er ekki kveðið á um það í fjármálaáætluninni hvers lenskar umræddar plöntur verða en vissulega kveðið á um það að við séum að horfa á endurheimt vistkerfa á illa förnu landi í þjóðlendum. En hugsunin á bak við það að eiga þetta samráð og kalla til matvælaráðherra sem fer með landgræðslu og skógrækt og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og svo haghafa heima í héraði er einmitt að við gefum okkur ekki hver niðurstaðan verður. Þetta eru svona stóru línurnar, meginlínurnar, en það eru mikil tækifæri í kolefnisbindingu og hreinlega að sýna þessum verðmætum sem okkur hafa verið falin þann sóma sem þau eiga skilið. Það er vissulega þannig að margt af þessu landi er illa farið og því má kannski segja að við séum í ákveðinni skuld við sum svæði þar sem skiptir máli að vanda vel til verka þannig að lengi standi.