Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:07]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í inngangsorðum mínum þá stenst sá málflutningur ekki skoðun að hér hafi útgjöld aukist langt umfram getu á undanförnum árum þegar stóra myndin er skoðuð. Þegar við horfum til þess hvernig þessi fjármálaáætlun birtir t.d. vöxt samneyslunnar þá er gert ráð fyrir að hann verði tiltölulega hægur í sögulegu samhengi, að samneyslan lækki sem hlutfall af landsframleiðslu í átt að langtímameðaltali sínu á áætlanatímabilinu eftir að hafa auðvitað og augljóslega aukist mikið í heimsfaraldri þegar fjármálunum var beitt til að vinna gegn efnahagssamdrætti og atvinnuleysi og var núverandi ríkisstjórn þá heldur gagnrýnd fyrir að taka ekki nægilega stór skref í þeim aðgerðum. Ég hafna því að hér hafi útgjöld aukist um of og leyfi mér að benda á, þó að hv. þingmenn telji að það sé rangt að gera það, að meginútgjaldavöxturinn hefur runnið í þessa mikilvægu málaflokka. Sú forgangsröðun birtist auðvitað í þessari fjármálaáætlun þar sem fyrst og fremst er gert ráð fyrir hagræðingu í stjórnkerfinu, hjá ráðuneytunum sérstaklega þar sem er gerð viðbótarhagræðingarkrafa og horft til þess hvernig við getum nýtt ákveðna þætti, vissulega umdeildir eins og verkefnamiðað vinnurými, aukin stafvæðing o.fl., til að draga úr kostnaði við rekstur ríkissjóðs. Ég held að það sé mjög jákvætt. Og af því að hv. þingmaður nefndi að hér væru öll sammála um aukin útgjöld til heilbrigðismála þá vona ég líka að við séum öll sammála um að það er eðlilegt og jákvætt að horfa til hagræðingar út frá þessum þáttum, hvernig við getum gert þjónustu ríkisins í raun og veru betri á sama tíma og við drögum úr ýmsum kostnaði í tengslum við þá þjónustu. En mér finnst mikilvægt að halda þessari stóru mynd til haga. Að sjálfsögðu, eins og ég nefndi, hafa stjórnvöld verið að beita sér á húsnæðismarkaði með framlögum sínum og stuðningi, beita sér í gegnum barnabótakerfið sem einmitt var tekin ákvörðun um að myndi nýtast (Forseti hringir.) fleiri fjölskyldum, ekki eingöngu hinum tekjulægstu, um síðustu áramót, sem ég tel að hafi verið allgóð sátt um (Forseti hringir.) í þessum sal, og snýst um nákvæmlega þessi markmið.