Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra hafnar því að ríkisútgjöld hafi aukist um of þegar ríkisstjórnin er búin að slá öll met í útgjaldaaukningu ríkisins og heildarútgjöldum. Þetta skýrir ýmislegt, frú forseti. Það skýrir m.a. það að þessi fjármálaáætlun sýnir engin merki um að ríkisstjórnin geri sér nokkra grein fyrir umfangi og eðli vandans. Ráðist er í skattahækkanir fremur en sparnað. Svartsýni þessarar ríkisstjórnar á eigin getu eykst jafnt og þétt, til að mynda ef við lítum til ársins 2025 og fjármálaáætlunar þessarar ríkisstjórnar um útgjöld á því ári. Í fjármálaáætlun 2022–2026 áttu þau að verða 1.166 milljarðar, í næstu fjármálaáætlun 1.281 milljarður og í þessari fjármálaáætlun 1.446 milljarðar. Þetta er sama árið og svartsýni ríkisstjórnarinnar um eigin getu eykst jafnt og þétt. Nú er sem sagt hátt í 300 milljarða aukning á sama árinu á aðeins þremur árum. Því meira sem raunveruleikinn nálgast, þeim mun betur kemur í ljós hversu illa ígrundaðar áætlanir þessarar ríkisstjórnar eru. Og eftir höfðinu dansa limirnir því að forsætisráðuneytið hefur aukið útgjöld sín alveg stórkostlega í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þau voru samkvæmt reikningum 1.578 milljarðar 2021 og fóru upp í 2.435 milljarða árið 2022. Fólki sem er í þjónustu við þessa ríkisstjórn fjölgar auðvitað gríðarlega, ríkisstjórn sem í einhvers konar kaldhæðnislegu gríni kynnti sig fyrst sem ríkisstjórn um eflingu Alþingis en var síðan bara ríkisstjórn um eflingu útgjalda og fjölgunar starfsfólks til að fylgja eftir sinni pólitík.

Frú forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er engin von um að ríkisstjórnin nái tökum á þessu ástandi? Hlustið þið t.d. á eigið fjármálaráð? (Forseti hringir.) Hæstv. ráðherra er nú oft hrifin af alls konar ráðum, nema greinilega þegar þau gagnrýna ríkisstjórnina.