Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir að koma hér upp. Ég leyfi mér að benda á að á sama tíma og kvartað er yfir útgjaldavexti eru um leið uppi mjög skýrar kröfur, þvert á flokka eins og kom fram í fyrirspurn hjá síðasta hv. þingmanni, um að auka útgjöld til þeirra málaflokka sem ríkisstjórnin hefur einmitt gert; heilbrigðismála, velferðarmála, rannsókna og nýsköpunar. Í þetta höfum við verið að auka útgjöldin með mjög góðum árangri. Það er ekki hægt að tala um útgjaldaaukningu án þess í fyrsta lagi að horfa á þessa stóru mynd þar sem hefur verið um að ræða hægfara raunvöxt og hins vegar forgangsröðun sem fyrst og fremst hefur snúist um þessa mikilvægu grunnþjónustu. Ég stend bara stolt með því, alveg eins og komið hefur á daginn, að þær aðgerðir sem þessi ríkisstjórn réðst í til að takast á við heimsfaraldur skiluðu góðum árangri þvert á hrakspár ýmissa hér í þessum þingsal sem töldu að stærsta viðfangsefnið núna yrði að glíma við langtímaatvinnuleysi og það margfalt miðað við það sem við höfum séð einmitt vegna þess að aðgerðir okkar skila árangri. Við vorum fremur gagnrýnd fyrir að gera of lítið en of mikið. En það er hins vegar sá halli sem við er að eiga í dag. Hann sprettur augljóslega af þessum aðgerðum.

Hvað varðar útgjaldaaukningu forsætisráðuneytisins, og þetta er kannski ekki í fyrsta sinn sem við hv. þingmaður ræðum þetta en með gleði skal ég eiga samtal um það, munar mestu þar auðvitað um þá staðreynd að jafnréttismál og síðar mannréttindamál voru færð yfir til forsætisráðuneytis. Því fylgdu að sjálfsögðu fleiri störf, fleiri stöðugildi sem fóru á móti úr annars vegar félagsmálaráðuneyti til að byrja með og síðar úr dómsmálaráðuneyti. Aukningin sem hv. þingmaður nefnir hér snýst því ekki um gríðarlega aukningu, þótt vissulega hafi þessir málaflokkar eitthvað verið styrktir, heldur snýst hún fyrst og fremst um tilflutning verkefna.