Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:27]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Þau áform sem komu fram í byrjun árs um að selja flugvélina til að hagræða í rekstri voru afturkölluð, svo það liggi fyrir. Aftur á móti, eins og kom fram í inngangsorðum mínum, skipaði ég starfshóp með sérfræðingum, utanaðkomandi sérfræðingum, m.a. í flugrekstri, til að fara með stjórnendum stofnunarinnar í gegnum reksturinn og sjá hvar við gætum gert mögulega betur. Við horfum ekki síst til flugrekstrarins þar sem hann er mjög þungur og staðan hefur verið óásættanleg, að við skulum ekki hafa getað verið hér með flugvél ásamt þyrlunum í rekstri allt árið heldur eins og verið hefur að T-SIF hefur bara verið til ráðstöfunar, manni liggur við að segja nokkrar vikur á ári á undanförnum árum. Það er óviðunandi og það liggur fyrir að rekstur þessarar vélar er dýr. Það liggur fyrir mikill fjárfestingarkostnaður og það liggur líka fyrir að nágrannaþjóðir okkar, — ég horfi til að mynda til Danmerkur, Noregs, Bretlands, Írlands— þar er þessum málum háttað þannig að reksturinn er með annarri gerð af vélum sem eru í senn miklu ódýrari en hafa meiri flughraða og þær hafa getað farið í hærri flughæð og þannig flogið fyrir ofan öll veður. Þær eru búnar öllum hátæknibúnaði sem kröfur eru gerðar um í TF-SIF; nútímabúnaði sem gerir vélinni kleift að sinna öllum verkefnum, tæknibúnaði þar sem til að mynda jarðvísindamenn, ef þeir þurfa að nota hana yfir landi þá sendir þessi búnaður allar upplýsingar beint inn í stjórnstöð þannig að þeir þurfa ekkert að vera um borð í flugvél, þeir geta horft á þetta þar, eins margir og þeir vilja.

Þetta erum við allt að skoða núna og það mun skýrast bara á næstu vikum hvaða skref verða stigin í þessu. Auðvitað er sú skylda á okkur sem förum með fjármuni ríkisins að gæta að því að fara eins vel með skattfé borgaranna og hægt er og hagræða í rekstri. Það er mitt markmið (Forseti hringir.) að gera það án þess að nokkuð verði slegið af kröfum um viðbragðs- og björgunargetu Landhelgisgæslunnar frekar en annarra björgunaraðila í landinu.