Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:36]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að málsmeðferðartími sakamála hefur verið allt of langur í mörgum tilfellum en ég get ekki tekið undir það með honum að það sé metnaðarleysi sem svífur yfir vötnunum í þessum málaflokki núna. Þetta hefur verið eitt af mínum aðaláherslumálum á þessum stutta tíma sem ég er búinn að vera í ráðuneytinu, greining einmitt á þessum flöskuhálsum, sem ég kalla, sem eru frá því að mál er ákært og það er rannsakað og það fer fram saksókn og síðan dómstólar og svo afplánun. Við erum búin að vera að greina þessa flöskuhálsa og þetta lá auðvitað mjög mikið í rannsókn og saksókn. Það er á grundvelli þess sem við, eftir mikla vinnu á síðasta ári, gátum fært sterk rök fyrir því að fá verulega aukningu á fjármagni til lögreglunnar. Það þýðir fjölgun starfa á þessum vettvangi. Með því sem var gert á síðasta ári og er síðan komið í gang og fyrirhugað á þessu ári eru um 80 ný störf. Á síðasta ári til að mynda tókum við sérstaklega fyrir átak í rannsókn og saksókn í kynferðisafbrotamálum. Þar var málsmeðferðartími allt of langur. Nú þegar, með þeirri innspýtingu og skipulagsbreytingum sem við gerðum síðastliðið haust, hefur málahali styst um 40%. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem um 80% þessara mála eru, þá er hann að verða mjög ásættanlegur. Þess sama erum við að horfa til þegar við erum að taka hér skipulagða brotastarfsemi og mikla eflingu í löggæslunni og í saksókninni. Einmitt þetta er stöðug áskorun, það er alveg ljóst, og við hana þarf að glíma (Forseti hringir.) en við erum svo sannarlega að fara af stað í átak og erum að innleiða enn frekari og mjög öflug skref (Forseti hringir.) núna á næstu vikum og mánuðum í þessum efnum.