Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:39]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf):

Frú forseti. Ég vil taka það fram að ég er ekki að ásaka hæstv. ráðherra um metnaðarleysi persónulega en þetta einfaldlega skín í gegn og það skín líka í gegnum tölurnar. Þó svo að alþjóð viti að hann hefur metnað í björgunarmálum þá kemur það ekki fram í t.d. þeim fjárhæðum sem eru ætlaðar inn til Landhelgisgæslunnar og í eflingu á þeim málaflokki sem er greinilega hjá hæstv. ráðherra. Það er eins og þessir málaflokkar sem eru undir ráðuneyti hæstv. ráðherra hafi bara orðið undir, að þeir hafi orðið undir í ríkisstjórninni. Mögulega er það veik staða hjá hæstv. ráðherra innan stjórnarinnar en þetta er auðvitað óásættanlegt fyrir okkur, hæstv. ráðherra, sem höfum metnað fyrir þessum málaflokki.

Það er eitt sem ég vil nota hér tækifærið til að vara við og það er að halda að einhverjar skipulagsbreytingar á opinberum ferlum leiði sjálfkrafa til ákveðinnar framleiðniaukningar í kerfinu. Venjan er bara sú að við skipulagsbreytingar hægist aðeins á ferlum. Menn þurfa að átta sig á nýju skipulagi og svo mögulega næst fram sá árangur sem til var ætlast. Það eru bara til fjölmörg dæmi um það. Þess vegna vara ég við því að telja að það að eyða mjög miklu púðri í einfaldar skipulagsbreytingar skili einhverju sjálfkrafa. Það þarf að undirbúa það vel. Ég tel að það sé eitt af því sem skiptir meginmáli til að ná fram árangri núna í þessum mikilvæga málaflokki sem hér er undir.